150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga og áhrif þess til að bæta aðstöðu okkar út af kórónuveirunni. Í andsvari við hv. formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, fyrr í dag lagði ég til að 50.000 kr. yrðu borgaðar skatta- og skerðingalaust til öryrkja og eldri borgara sem virkilega þurfa á því að halda núna. Ég ætla að lesa upp úr umsögn Öryrkjabandalagsins við fjáraukalög. Þar er sagt, með leyfi forseta:

Lagt er til að örorkulífeyrir verði hækkaður strax til að mæta þeim fjölmörgu einstaklingum sem nú hafa m.a. ekki aðgang að mataraðstoð hjálparsamtaka. Lagt er til að hækka grunnlífeyri eða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega um 50.000 kr. Hér er nánar útskýrt um tekjutryggingu og grunnlífeyri og áhrif af því að hækka framfærslu öryrkja með því annars vegar að hækka grunnlífeyri örorkulífeyris og hins vegar tekjutryggingar. Grunnlífeyrisgreiðslur samkvæmt 18. gr. almannatrygginga eru til öryrkja. 18.592 manns fengu greiddan grunnlífeyri og þar af 17.411 manns sem fá greiddan óskertan grunnlífeyri en tekjur skerða ekki grunnlífeyri. Tekjur frá lífeyrissjóði skerða ekki grunnlífeyri og fellur niður þegar tekjur annars staðar frá eru yfir 407.034 kr. á mánuði eða 4.888.404 kr. á ári. Skerðingarhlutfall er 25%. Aðrar tekjur en lífeyrissjóðstekjur byrja að skerðast þegar tekjur eru yfir 214.000 kr.

Það væri alveg tilvalið að við tækjum okkur saman og drifum í því að bæta þarna við því að í sjálfu sér yrði ekki um að ræða rosalega fjármuni miðað við þá greiðslu sem á að koma, 20.000 kr. á hvern öryrkja, sem kostar 400 milljónir. Þarna erum við kannski að tala um 600 milljónir af því að það kemur töluvert til baka í skatt, allt er þetta skattskylt. Þetta sem fyrsta skref myndi styrkja stöðu öryrkja og væri mjög óskandi að það yrði eitt af næstu skrefum sem við tökum í þessum málum.

Annað sem hefur kannski gleymst svolítið í þessari umræðu í dag, eða ég hef ekki orðið var við það, er staða íþróttaþjálfunar á landinu og framtíð hennar. Þarna er undirstaðan fyrir stóran hluta af okkar æsku sem stundar íþróttir. Ég get ekki ímyndað mér annað en að fjárhagsstaða hjá mörgum félögum verði skelfileg og spurning hvaða afleiðingar það kunni að hafa þegar fram í sækir. Þarna þarf að taka til hendinni og hjálpa. Ég vona að það verði gert.

Síðan er eitt í þessu sem við höfum verið að ræða og þarf að ræða betur, en það eru einyrkjar. Nú skerðast tekjur hjá mörgum einyrkjum og við höfum ákveðinn hóp t.d. bænda sem eru eingöngu í ferðaþjónustu á ákveðnum tíma ársins, kannski frá mars/apríl fram í september, október, nóvember í mesta lagi, og detta þar af leiðandi út og eru með engar tekjur í nokkra mánuði. Spurningin er hvernig þeim reiðir af. Gert er ráð fyrir einhverjum tekjum aftur í tímann og það er spurning hvort þessir einstaklingar lendi á milli skips og bryggju, þeir nái ekki inn í þau úrræði sem hafa nú þegar verið kynnt. Svo eru fleiri stéttir sem fara illa út úr þessu eins og leigubílstjórar, sjúkraþjálfarar og margir fleiri sem geta ekki stundað vinnu sína eins og hún hefur verið hingað til.

Við verðum líka að spá í það sem er fram undan, hvað kemur eftir að veirufaraldurinn er yfirstaðinn. Mesti óttinn í því er gagnvart heimilunum og fólkinu. Til þess að geta risið upp úr þessu verða undirstöðurnar að vera í lagi, heimilin og fólkið. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórnin er að gera ýmsa góða hluti sem hægt er að taka undir og styðja allt sem hún er að gera, en minni hlutinn stendur saman að því að reyna að koma fram með stærri pakka, reyna að gera meira frekar en minna, eins og hefur komið fram. Það hefur verið gegnumgangandi hérna, gerum meira. En spurningin er alltaf: Hvenær er nóg? Það er kannski erfiðasta spurningin í þessu, hvenær sé komið nóg. Eru það 20 milljarðar eða 30 milljarðar? Ég held að 20–30 milljarðar væri flott ef þeir eru settir á réttan stað. Það verður sennilega mesta vandamálið. Hvar er rétti staðurinn? Eins og ég segi þá eru það auðvitað heimilin, fólkið og fyrirtækin. Það er númer eitt, tvö og þrjú.

Ég styð það algerlega að Reykjanesbrautin verði kláruð. Það verður að segjast alveg eins og er að það er dauðans alvara að vera ekki búin að tvöfalda hana. Þar sem hún er ekki tvöföld, þar verða slysin. Slys eru rosalega dýr fyrir þjóðfélagið en langverst fyrir þá sem lenda í þeim. Því miður verða þarna dauðaslys og það er ekki afturkræft. Þess vegna ber okkur að nota tækifærið núna og klára þessa hluti.

Annað sem ég hef ekki heyrt nefnt en ætti að vera einn góður pakki núna, nýta tækifærið til að taka út allar einbreiðar brýr á hringveginum. Það hefur sýnt sig að þær eru dauðagildrur. Þarna er mjög þarft mál á ferðinni og væri virkilega gott að klára það. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað það myndi kosta en ég held að það sé eiginlega ekki hægt að meta það til fjár vegna þess að ef við komum í veg fyrir þau slys sem verða á einbreiðum brúm myndi það fljótt borga upp þann kostnað.

Í nefndaráliti um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru frá efnahags- og viðskiptanefnd, er fulltrúi Flokks fólksins, Inga Sæland, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, með fyrirvara og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður framgang málsins með eftirfarandi fyrirvara: Þegar er viðurkennt að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessu frumvarpi. Samþykkt þess, með þeim breytingum sem nefndin leggur til, er hins vegar fyrsta skrefið í rétta átt og mun koma að miklu gagni við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 sjúkdómsins. Þó hefði mátt kveða á um miklu öflugri stuðning við fátækt fólk og fjölskyldur strax, því að það eru grundvallarmannréttindi að ríkisvaldið uppfylli grunnþarfir borgaranna um fæði, klæði, húsnæði og hvers konar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.“

Í nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak frá meiri hluta fjárlaganefndar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Inga Sæland skrifar undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að þegar er viðurkennt að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessum þingmálum. Samþykkt þeirra, með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, er hins vegar fyrsta skrefið í rétta átt og mun koma að miklu gagni við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldursins er veldur Covid-19 sjúkdómnum. Þó hefði Inga Sæland viljað sjá miklu öflugri stuðning við fátækt fólk og fjölskyldur strax, því að það eru grundvallarmannréttindi að ríkisvaldið uppfylli grunnþarfir borgaranna, þ.e. um fæði, klæði, húsnæði og hvers konar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.“

Fæði, klæði og húsnæði. Það á eiginlega að vera óþarfi að nefna það af því að það á auðvitað að vera sjálfsagt mál að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að hafa ekki fæði, klæði og húsnæði. En því miður, þannig er það ekki. Við eigum að stefna að því að sjá til þess að allir njóti þeirra mannréttinda. Þar af leiðandi, til að tryggja það, þarf líka að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra.

Síðan er eitt sem við þurfum að átta okkur á, ég er ekki alveg viss en er óttasleginn yfir því að við gleymum okkur augnablik og verðbólgan fari af stað. Ef við horfum á gengið undanfarna daga þá er það á fleygiferð. Krónan veikist og hækkun á t.d. evrunni er orðin gígantísk og það er ekki gott vegna þess að það þýðir auðvitað að allar vörur sem koma til landsins hækka. Þar af leiðandi munu þeir sem eru á lægstu lífeyrislaunum eiga mun erfiðara með að kaupa sér nauðsynjavörur. Þess vegna liggur á að gera eitthvað fyrir þann hóp. Mér finnst miður að það verði ekki fyrr en 1. júní, svolítið langt í það. Ég hefði viljað sjá það 1. apríl en of stutt er þangað til til að það gangi upp, en þá hefði ég viljað sjá greiðslu til þeirra 1. maí. Ég spyr: Af hverju er ekki hægt að hafa þessa eingreiðslu 1. maí, af hverju 1. júní? Ég held að það kæmi þessum hópi betur að fá hana fyrr og hefði verið enn þá betra að hann fengi líka greiðslu 1. júní. Það hefði verið mjög flott. Það er algjörlega þörf á því að hjálpa þessum hópi.

Tillögur minni hlutans eru margar frábærar en því miður, eins og hefur komið hérna fram, er hætt við því að þær verði allar felldar við atkvæðagreiðslu á eftir. Það er miður vegna þess að ef við horfum á þær breytingar sem þarna er verið að gera í samhengi við heildarpakkann er það ekki rosalega há upphæð. Þetta er innan við 10% af heildarpakkanum. Þetta er ekki óviðráðanlegt í sjálfu sér. Ég held að það myndi verða til bóta. Það væri frábært ef meiri hlutinn myndi samþykkja það og við tækjum einu sinni út þessar skrýtnu skotgrafir sem virðist alltaf þurfa að vera, að samþykkja ekki það sem minni hlutinn kemur með, sérstaklega þegar svona mikil samstaða er um að gera hlutina vel. Það hefði alveg mátt samræma betur það sem meiri hlutinn leggur fram og það sem minni hlutinn leggur fram og fara bil beggja. En það er því miður ekki í boði nema í einhverjum fullkomnum heimi, vonandi lærum við það í framtíðinni að við þurfum að vinna saman að öllum málum, sérstaklega á svona tímum. Við erum að gera það sem betur fer en ég hefði viljað að það hefði verið meira og betra og að von væri um að tillögur minni hlutans, sem eru mjög góðar, yrðu samþykktar. Ég held að það yrði mjög gott fyrir þjóðfélagið vegna þess að þarna eru mjög margar mjög góðar tillögur eins og um NPA-stuðning, stuðning til hjúkrunarfræðinga, stuðningi til eldri borgara og velferðarkerfisins. Þetta eru frábærar tillögur. Ég vona að ef þær verða ekki með núna þá verði þær með í næsta pakka sem ég veit að kemur. Ég vona heitt og innilega að þar verði þær tillögur inni.