150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum. Þetta er einmitt það sem við þurfum að passa upp á. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er aldrei hægt að fá allan pakkann, við getum það ekki, það er útilokað. En ég hef lagt áherslu á og vona heitt og innilega að í öllu þessu ástandi sem við erum í núna gleymist þeir aldrei sem mest þurfa á aðstoð að halda. Maður gerir sér ekki grein fyrir hvernig það er að vera í þeirri aðstöðu. Ég geri mér að hluta til grein fyrir því hvernig það er að vera á lægstu lífeyrislaunum og geta enga björg sér veitt og vera í þeirri aðstöðu að þurfa að velja hvort maður á húsnæði eða hvort maður á fyrir mat eða lyfjum. Það er ömurleg staða og það á enginn að þurfa að vera í þeirri stöðu. Ég vona heitt og innilega að við getum sammælst um að það sé forgangurinn. Á sama tíma væri ofboðslega gott fyrir þjóðfélagið í heild sinni að við sæjum til þess að enginn þurfi að leita til Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar eða Fjölskylduhjálpar Íslands. Að fólk hefði bara sína fjármuni, gæti farið út í búð og keypt þá hluti sem það vill en þyrfti ekki að láta skammta sér eitthvað sem það veit ekki hvað er. Það er ömurlegt og á ekki að vera og ég trúi því að við munum sjá til þess að breyta þessu og það fljótt.