150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[18:15]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni, formanni allsherjar- og menntamálanefndar, fyrir ágæta framsögu. Nefndin stendur einhuga að þessu máli. Hún ræddi málið ítarlega eða eins ítarlega og aðstæður gáfu tilefni til. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Páls Magnússonar að tíminn var ekki eins langur og ákjósanlegt hefði verið við eðlilegar aðstæður, en aðstæður eru ekki eðlilegar um þessar mundir. Það sem felst í þessu eins og hv. formaður nefndarinnar fór vel yfir er að sett er inn nýtt ákvæði sem leggur auknar skyldur á hendur opinberum starfsmönnum. Við erum með í lögum um almannavarnir almenna heimild til handa yfirvaldi almannavarna, lögreglustjóra, þegar hæsta stig almannavarna er virkjað, að kalla til borgara til tiltekinna starfa.

Í þessu frumvarpi er gengið lengra að því leyti til að hér er aðilum sem eru í forsvari fyrir opinbera aðila og hafa þar með mannaforráð heimilt að breyta starfsskyldum starfsmanna á þeim tímum þegar hættuástand er. Í sjálfu sér var engin óeining í nefndinni um að rétt væri í ljósi allra aðstæðna að grípa til þess að gera þessar breytingar en ég held að meðferð nefndarinnar og samvinnan í henni, sem var með ágætum, sé einmitt dæmi um mikilvægi þess að við ræðum saman um málin þegar við viljum ná samkomulagi um að gera vel fyrir samfélagið á erfiðum tímum. Málið tók talsverðum breytingum í meðförum nefndarinnar, það varð skýrara og betra.

Að mínu mati var mjög mikilvægt að breyta ákvæðinu í þá veru að það yrði bráðabirgðaákvæði. Þegar við setjum auknar skyldur á fólk þarf að gera það að yfirveguðu ráði. Það er ekki algjörlega að ástæðulausu sem fólk óttast að þegar heimildir stjórnvalda eru auknar kunni þeim að verða misbeitt. Ég held þó að almennt talað hafi nefndarmenn ekki verið á því að það væri raunveruleg eða yfirvofandi hætta. Engu að síður sjáum við að víða um heim er verið að grípa til alls konar ráðstafana til að grípa inn í daglegt líf fólks. Þar sem lengst er gengið — og forði okkur frá því að það ástand komi hér nokkurn tímann upp — í sumum löndum, löndum sem eru ekkert allt of langt frá okkur, grípa menn til þess að taka til sín völd vegna þess að neyðarástand og lýðræði þvælist fyrir. Þess vegna held ég að það hafi verið mjög gott, og ég fagna því, að hlustað var á þau sjónarmið sem upp komu í nefndinni um að rétt væri að hafa ákvæði til bráðabirgða um að þegar þessu ástandi lýkur, sem vonandi verður eftir ekki of langan tíma, verði hægt að hefjast handa við að skoða, eins og fram kemur í nefndarálitinu, lögin um almannavarnir í heild sinni og þar með þetta ákvæði. Sem betur held ég að það sé mjög ríkur vilji í samfélaginu og jafnt hjá opinberum starfsmönnum sem öllum öðrum til að leggja hönd á plóg þegar hætta steðjar að. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki vandinn en það er mjög mikilvægt að við getum búið um þessi ákvæði til frambúðar þannig að allir séu vissir um að rétt sé að málum staðið og engin hætta á að gengið verði á lagið. Ég er ekki að segja að ég óttist það sérstaklega en það er mikilvægt að við vöndum okkur í lagasetningu af þessu tagi. Um það var nefndin sammála og því fagna ég.