150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[19:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga minni hlutans er fjárfestingar- og framkvæmdatillaga upp á 4,6 milljarða kr. og skapar dýrmæt störf í erfiðum aðstæðum. Hún gengur út á að ráðist verði í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir u.þ.b. 2 milljarða kr. Auk þess eru önnur verkefni sem skapa störf og eru mannaflsfrek eins og stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga er varðar fráveitumál sem er mikið umhverfismál og Vinstri grænir ættu að styðja með okkur, 300 millj. kr. Lagðar eru til 300 millj. kr. í sóknaráætlun landshluta, 300 millj. kr. í framkvæmdir við flughlað á Akureyri og á Egilsstaðaflugvelli og 100 millj. kr. í flugstöðina á Akureyri.

Allt er þetta viðbót við tillögur ríkisstjórnarinnar til að skapa fleiri störf.

Auk þess má nefna 200 millj. kr. framlag í Tækniskólann og síðan önnur minni verkefni, t.d. endurgerð sögulegra innréttinga Bessastaðakirkju, framkvæmdir við Hóla í Hjaltadal og framkvæmdir við húsasafn Þjóðminjasafnsins.

Allt skapar þetta störf sem skiptir mestu máli (Forseti hringir.) í því að efla og endurreisa atvinnulífið á ný.