150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[19:57]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Eins og kemur fram í bæði greinargerð frumvarpsins og nefndaráliti var ekki nægur tími til að ganga frá þessu máli á þann hátt sem venjulega þætti sómi að. Af þeim sökum er mjög mikilvægt og jákvætt að nefndin hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að gera ákvæðið að bráðabirgðaákvæði í stað þess að festa það varanlega í lög. Eitt af því sem fjallað var um í innsendum umsögnum til nefndarinnar var að ef fólk yrði fært í starf sem er betur launað ætti það að fá laun í samræmi við það. Nefndin taldi ákvæði kjarasamninga koma að mestu eða öllu leyti til móts við þessar áhyggjur þrátt fyrir ákvæði frumvarpsins. Þetta er þó eitt af þeim atriðum sem við Píratar teljum nauðsynlegt að útfæra betur í lagatextanum sjálfum ef gera á sambærilegt ákvæði varanlegt í framtíðinni.

Því greiðum við atkvæði með frumvarpinu en áréttum að það sé í ljósi aðstæðna og með hliðsjón af því að ákvæðið sé til bráðabirgða og gildi einungis út þetta ár nema okkur vinnist nægt ráðrúm til að vinna málið betur.