150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[19:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna þeirri breytingu sem varð á málinu í meðferð allsherjar- og menntamálanefndar að því leytinu að það sem var upphaflega varanleg breyting á lögum varð að bráðabirgðaákvæði. Þetta skiptir miklu máli varðandi mál sem er, eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, samið á neyðarstigi almannavarna á mjög skömmum tíma og sömuleiðis fer það mjög hratt í gegnum þingið. Þetta er mál sem snertir grundvallarréttindi einstaklinga og slík mál getum við ekki fest varanlega í lög nema með vandlegri yfirvegun.

Ég tel að mikilvæg hefð sé að myndast á þinginu af því að það sama átti sér stað varðandi mál sem lagt var fram af umhverfis- og samgöngunefnd og breytt í síðustu viku á þann hátt að sú breyting var gerð til bráðabirgða. Ég held að þetta sé hyggilegt á neyðarstund, að við séum ekki að gera varanlega víðtækar breytingar á lögum án þeirrar yfirlegu sem þeim sæmir.