150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

almannavarnir.

697. mál
[20:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég styð þetta mál en ætla að gera nokkrar athugasemdir. Ekki er búið að lagfæra það sem ég benti á í umræðu um málið, þetta með hættustundina. Hún er illa skilgreind og raunverulega er lagt í hendur ríkislögreglustjóra að segja til um hvenær hún er komin. Að segja að þetta sé bara á neyðarstigi er ekki rétt eins og ég benti á í 1. umr. um þetta mál.

Ég vil endurtaka aðrar ábendingar mínar, t.d. um 20. gr. Hana þarf að laga. Þar er minnst á sýslumenn sem hafa engu hlutverki að gegna í almannavarnakerfinu. Svo er ýmislegt annað, eins og t.d. í óveðrinu í vetur má minnast á að það hefði mátt laga. Það vantar almannavarnafulltrúa eða almannavarnatengil í mörg byggðarlög, ekki síst núna þegar sveitarfélög eru að stækka, embætti lögreglustjóra hafa stækkað undanfarin ár og byggðarlög eru oft mörg undir einni almannavarnanefnd. Þá er kannski enginn ábyrgur aðili í einhverju tilteknu sveitarfélagi.