150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

þingfundir og umræður.

[10:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég beini því til herra forseta að fram fari sérstök umræða í þinginu um stöðuna sem komin er upp í baráttunni við kórónuveiruna. Ríkisstjórnin lítilsvirðir hjúkrunarfræðinga, þá sem við þurfum mest á að halda á hættutímum. Skilaboð ríkisstjórnarinnar með konu í stóli forsætisráðherra og konu í stóli heilbrigðisráðherra til hjúkrunarfræðinga, stærstu kvennastéttar landsins, og það á tímum heimsfaraldurs eru þessi: Við höfum engan áhuga á að semja við ykkur þó svo að samningar hafi verið lausir í eitt ár. Við lækkuðum launin við ykkur um mánaðamótin og við felldum tillögu á Alþingi um að færa ykkur sérstaka álagsgreiðslu.

Herra forseti. Alþingi þarf að grípa inn í og stoppa þessa dæmalausu framkomu ríkisstjórnarinnar. Þetta alvarlega mál þarf að ræða strax og á þessum vettvangi verður að taka á því. Ég leita liðsinnis herra forseta.