150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

kostnaður við kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í kjarasamningalotunni sem nú stendur yfir hafa lífskjarasamningarnir sett ákveðið viðmið og ríkið hefur nú þegar náð samningum við u.þ.b. helming ríkisstarfsmanna og þá háskólamenntuðu sem starfa hjá ríkinu. Um þessi grundvallaratriði hafa þegar tekist samningar. Í lotunni sem nú stendur yfir við hjúkrunarfræðinga hefur sömuleiðis tekist samkomulag, vil ég meina, um þau grundvallaratriði sem mest áhersla var lögð á. Ef hv. þingmaður vill raunverulega skoða hvernig kjör hjúkrunarfræðinga hafa þróast í minni tíð sem fjármálaráðherra hlakka ég til að sjá þann samanburð vegna þess að kaupmáttur og launaþróun þessarar stéttar hefur verið betri í minni tíð sem fjármálaráðherra en nokkru sinni áður. Það er sú einkunn sem ég mun fá vilji hv. þingmaður raunverulega fara í þennan samanburð. (Gripið fram í.) Verkefnið núna er að ljúka samningsgerðinni þannig (Forseti hringir.) að það spili saman við þá stofnanasamninga sem hafa verið í gildi (Gripið fram í.) þannig að niðurstaðan sé …

(Forseti (SJS): Ekki frammíköll.)

— kjarabót fyrir hjúkrunarfræðinga. Það er markmiðið. (Gripið fram í: Það er ekki lækkun launa. Þú svarar ekki, hann svarar ekki …)

(Forseti (SJS): Fyrirspurninni hefur verið svarað.) (JÞÓ: Nei.)

(Forseti (SJS): Fyrirspurninni hefur verið svarað. Ég bið hv. þingmenn að halda aftur af sér. Ráðherrar ráða sínum svörum og þingmenn sínum spurningum.)