150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

staðan á Suðurnesjum.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi vaktaálagið eru það samningar sem eru gerðir inni á stofnun og tengjast ekki miðlægri samningagerð. Ég notaði orðalagið að þetta væri óheppilegt vegna þess að þetta birtist okkur sem launalækkun en var allan tímann hugsað sem tímabundið átak og það eru margir mánuðir síðan það lá fyrir að átakinu lyki um þessar mundir.

Það sem ég hef fram að færa um þessi atriði á þessum tímapunkti er að ég er bjartsýnn á að við ljúkum samningum. Undir forystu ríkissáttasemjara höfum við náð að leysa þungamiðju málsins sem er vaktavinnufyrirkomulagið og stytting vinnuvikunnar og leiðir til þess að búa til betra starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir þessum mikilvægu störfum í vaktavinnu. Þetta atriði tel ég vera leyst við samningaborðið. Eftir stendur hluti af launaliðum og þar er einkum það sem snertir samspil miðlægra samninga og stofnanaáherslu eins og þeirrar sem birtist í vaktaálaginu og það verðum við að leysa. Við hljótum að ætla að leysa það með því að enginn lækki í launum við nýja kjarasamninga.