150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

túlkun skaðabótalaga.

[10:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og vona heitt og innilega að hún sjái til þess að þetta mál verði skoðað ofan í kjölinn vegna þess sem við vitum af reynslunni af bankahruninu. Við vitum hvað varð um t.d. einn bótasjóðinn. Hann hvarf og við vitum líka hvar hann endaði. Þetta er okkur til varnar og það hlýtur að vera kominn tími á að þeir sem eru þarna úti og lenda í vinnu- eða umferðarslysum — það ömurlegasta sem fólk getur lent í í miðri kreppu er að berjast við að ná heilsu en á sama tíma berjast við ofurefli tryggingafélags. Það sem er eiginlega furðulegast í þessu öllu er að þau vaða í peningum og lögfræðingum en tjónþoli má þakka fyrir að fá smáaura eða ekki neitt og síðan aftur og aftur neitun um gjafsókn frá dómsmálaráðuneytinu. Þetta þarf að endurskoða, það þarf að vera hreinlega í lögunum (Forseti hringir.) að gjafsókn sé hluti af bótakerfi tryggingafélaga þannig að allir sem lenda í tjóni geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.