150. löggjafarþing — 86. fundur,  2. apr. 2020.

aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja í fyrsta lagi að mér fannst takast góð samstaða um öll meginatriði sem voru afgreidd hér í vikunni. Þó að það sé rétt að ekki hafi verið fallist á tillögur stjórnarandstöðunnar sem stóðu fyrir utan það sem stjórnarandstaðan stóð að með okkur held ég að heilt yfir hafi verið ágætissamstaða um þessar fyrstu aðgerðir. Þetta voru fyrstu aðgerðir, nauðsynlegar aðgerðir, þær komu tímanlega, en þetta eru ekki lokaaðgerðir. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af framhaldinu og ég verð að segja alveg eins og er að staðan versnar hraðar en ég hafði vonast til að yrði raunin. Ég hafði vonast til þess að við myndum sjá mildari áhrif til að byrja með en þetta er verri staða. Það er augljóst að fyrirtæki eru m.a. út af samkomubanninu að lenda í gríðarlega miklum þrengingum og það er dálítið æpandi í þessari stöðu hvernig atvinnuöryggi í einkageiranum er í fullkomnu uppnámi á sama tíma og við erum að verja öll störf í opinbera geiranum.

Það sem ég myndi vilja segja nánar um einstaka tillögur eins og þá hvort kæmi til greina að hrófla við tryggingagjaldinu hugleiddi ég það mjög ítarlega áður en við tefldum fram aðgerðum okkar. Það var mín skoðun á þeim tímapunkti að hlutastarfaleiðin væri miklu skilvirkari. Hún er stærri aðgerð og grípur betur inn í launakostnað fyrirtækjanna en að fara bara í tryggingagjaldið. Við verðum að muna að tryggingagjaldið er þó ekki nema rétt rúmlega 6% af launakostnaði fyrirtækjanna þannig að jafnvel þótt við tækum það niður um helming dugar í sjálfu sér ekki neitt fyrir fyrirtæki sem hefur tapað helmingi veltu sinnar að taka 3% af launakostnaðinum. Hlutastarfaleiðin er miklu skilvirkari aðgerð og ef við þurfum að framlengja hana munum við verja tugum milljarða til viðbótar í þeim tilgangi að hjálpa fyrirtækjum að komast í gegnum þennan erfiða tíma.

Ég skal koma nánar inn á þetta í síðara andsvari.