150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að hefja mál mitt á því að segja að við getum öll verið gríðarlega stolt af því hvernig til hefur tekist undanfarið. Heilbrigðiskerfið hefur staðist álagið, heilbrigðiskerfi sem mikið hefur verið í umræðunni á þinginu undanfarin ár, m.a. fyrir að það væri of veikt, fjársvelt o.s.frv. Við höfum séð hvers megnugt þetta sama heilbrigðiskerfi er þegar virkilega reynir á. Þar hefur starfsfólkið unnið þrekvirki og ber að þakka fyrir það ótrúlega framlag sem mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu hefur skilað.

Í því sambandi er mikilvægt að við höfum nú náð samningum við stóru heilbrigðisstéttirnar. Þess vegna segi ég að við eigum öll að vera stolt af heilbrigðiskerfinu okkar. Þetta er tími til að sjá hversu stolt við getum verið af heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Við eigum að þakka öllu því fólki sem hefur lagt nótt við nýtan dag við að tryggja öryggi og heilbrigði landsmanna. Saman höfum við öll sýnt að við erum öll almannavarnir. Með því að sýna það í verki höfum við bjargað mannslífum, á því leikur enginn vafi. Af og til gerast atburðir á Íslandi þar sem reynir á fyrir hvað við viljum standa sem samfélag. Þetta er einn slíkra atburða, þetta er atburður sem gerir mann stoltan af því að vera Íslendingur og segir manni heilmikið um það hvað það er og hvers virði það er að tilheyra góðu samfélagi.

Nýjustu tölur segja okkur að við virðumst hafa náð tökum á útbreiðslu veirunnar en við verðum áfram að vera á varðbergi. Við verðum áfram að haga okkur með þeim ábyrga hætti sem við höfum gert undanfarnar vikur. Í dag voru tilslakanir á samkomubanninu kynntar sem taka gildi 4. maí. Þetta þýðir að við þurfum áfram að sýna þolinmæði en við vitum að það verður þess virði.

Þær efnahagslegu aðgerðir sem við höfum kynnt hér og fengið staðfestar og komið okkur saman um í þinginu hafa skipt gríðarlega miklu máli. Þær hafa verið settar saman við mjög óvanalegar aðstæður þar sem mikil óvissa ríkir. Við getum sagt sem svo að fyrir sex vikum gerðu svörtustu sviðsmyndir ráð fyrir einhverjum áhrifum á efnahagslífið fram á haustið en á mjög skömmum tíma hafa þær sviðsmyndir breyst og þær sem áður þóttu verstar urðu skyndilega tiltölulega bjartsýnar í samanburðinum. Við þurfum að búa okkur undir að svona geti vindarnir snúist áfram. Þetta sýnir okkur líka að þeir sem strax þóttust vita hvað bæri að gera voru ekki beint marktækir. Enn ríkir töluverð óvissa.

Við getum sagt að fyrstu aðgerðir okkar miðuðu að því að grípa þá sem voru í frjálsu falli. Af því hversu margir hafa nýtt sér þessi úrræði, hversu margir nýttu sér hlutabótaleiðina, hlutastarfaleiðina, við getum kallað hana hvort tveggja, og hversu margir hafa nýtt sér greiðslufresti hjá ríkinu og önnur úrræði, getum við séð í raun og veru spegilmynd þess hversu miklu þetta hefur skipt. Sumt er enn í lokafrágangi, brúarlánin svo dæmi sé tekið. Ég geri ráð fyrir að ég geti skrifað undir samkomulag um þau við Seðlabankann á fimmtudaginn og í framhaldinu mun bankinn semja við fjármálafyrirtæki og lánin munu þá standa til boða þeim sem uppfylla tiltekin skilyrði í gegnum fjármálafyrirtækin í landinu.

Ég verð að segja sömuleiðis, af því að nú er unnið að undirbúningi næstu aðgerða, að um leið og við smíðum úrræði til að mæta stöðunni þurfum við að vera hreinskilin með að við getum ekki lofað öllum að komast skaðlausum út úr þessu ástandi í efnahagslegum skilningi. Það er útilokað. Þetta verða einfaldlega erfiðir tímar. Við getum gert það sem er skynsamlegt að gera, við tökum sameiginlega á. Ég nefni sem dæmi að þeir sem hafa tekið það á sig fyrir samfélagið allt að loka starfsemi sinni hljóta að eiga skilið að fá stuðning frá samfélaginu. Það er augljóst. Það er nokkuð sem ég tel að við eigum að taka með okkur í næstu aðgerðir. Það er margt sem vinnur áfram með okkur og við munum reyna að nýta þá stöðu, t.d. ágæta skuldastöðu ríkissjóðs. Þó eru takmörk fyrir því hversu langt við getum gengið. Allir þurfa að leggjast á árarnar.

Í því sambandi langar mig að segja að fiskveiðistjórnarkerfið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórn veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða veiðigjald við ætlum að taka, eru allt mál sem við ráðum til lykta á Alþingi með lögum og reglum. Möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir á milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig. Nú höfum við tekið til varna í hinu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna. Ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. Ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag er einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Greiðslan vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er svo einfalt.

Virðulegi forseti. Það er margt sem mann langar til að koma að í umræðu um jafn stórt mál og hér hefur verið sett á dagskrá. Það er margt eftir ósagt. Þingfundir fram undan verða framhald á þessari umræðu. Mig langar að lokum að senda þakkir til allra landsmanna fyrir samstöðuna og rétt viðbrögð.

Við alla segi ég: Við verðum áfram að vera almannavarnir. Framlínufólki á öllum sviðum sendi ég miklar þakkir. Þetta hefur verið og verður áfram prófraun fyrir íslenskt samfélag. Við höfum staðist hana hingað til og við skulum áfram standa saman í baráttunni.