150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Covid-19 veiran hefur sýnt fram á að þar er á ferðinni dauðans alvara. Það sem hefur kannski slegið mann mest er hversu ótrúlega mörg dauðsföll hafa orðið, á heimsvísu um 6% og hjá Spánverjum, sem virðast hafa farið mjög illa út úr henni, um og yfir 10%. Það segir okkur að við verðum að taka ástandið alvarlega og gera allt sem við getum til að vernda fólk.

Eitt sem hefur verið talað um og hæstv. forsætisráðherra hafði orð á er brekka. Við erum á leiðinni upp brekku vegna Covid en þarna úti er stór hópur sem er alltaf að klífa brekkur. Fólk sem gengur um á hækjum, fer um í hjólastólum eða er með sjúkdóma er alltaf að klífa einhverjar brekkur. Því miður er spurningin: Hvenær verða boð og bönn farin að bíta þetta fólk? Hvenær mun það valda fólki skaða að komast ekki í sjúkraþjálfun, sund eða líkamsrækt? Ég missti sjúkraþjálfunina mína og hef oft velt fyrir mér hvar mörkin séu. Spurningin sem þetta fólk stendur frammi fyrir núna er hvort það eigi að bryðja sterk verkjalyf. Það eitt og sér vekur upp aðra spurningu því að enginn veit hvenær og hvort hann verður háður verkjalyfjum og getur orðið fíkninni að bráð. Þess vegna verðum við líka að huga að þeim sem eru berjast við fíknisjúkdóma og hjálpa þeim.

Annað sem er búið að ræða hér mikið og er stór hluti er hlutabótaleiðin. Því miður verðum við vitni að því að hópur dettur á milli og fær enga hjálp. Maður hefur séð dæmi um námsmenn í tveimur eða jafnvel þremur störfum, engu yfir 25%, missa þau öll og fá ekki neitt. Þannig eigum við ekki að vinna. Við verðum einhvern veginn að finna út hvernig við getum hjálpað þessu fólki vegna þess að kannski var það í 50–60% hlutastörfum en fær enga hjálp í dag.

Síðan er það sem við virðumst ekki ætla að læra af, hrunið. Við virðumst ætla að gleyma því að fólk missti á annan tug þúsunda íbúða. Hvers vegna missti það íbúðirnar? Út af gengisbreytingu. Fólk var með lán sem stökkbreyttust vegna gengis en líka og aðallega vegna verðbólgu. Af hverju erum við með verðtryggingu í gangi? Núna hefur hún eiginlega stoppað af sjálfu sér og við ættum að stoppa hana því að það er eiginlega ekki hægt að reikna hana rétt út og útilokað í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Nokkrir hlutar hennar eru dottnir út. Við eigum bara að sjá til þess að stoppa hana.

Í því samhengi sagði hæstv. fjármálaráðherra nokkuð í þessum stól í umræðu við mig um daginn sem ég þorði ekki einu sinni að fara í rökræðu við hann um vegna þess að ég hélt að ég hefði heyrt vitlaust. Ég gáði í textann og sá að hann sagði að það væri 0% verðbólga á verðtryggðum lánum og yrði fram til 2026 eftir inngrip Seðlabanka Íslands. Ég fór að gá að þessu en finn þetta hvergi. Hvaða útvaldir eru með 0% vexti á verðtryggðum lánum frá deginum þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína nýlega til 2026? Ég veit að það eru ekki heimilin.

Annað sem ég furða mig á er að í hlutabótapakkanum er lágmark. Sem betur fer fær enginn minna en 400.000 kr. því að það er vandlifað á minna. Einhverra hluta vegna reiknuðum við það öll út, og sem betur fer, að listamannalaun yrðu 407.000. Einhver stakk upp á því að borga þúsundum listamanna laun. Það væri bara hið besta mál ef við gætum það en þá vil ég fá skýringu á því hvers vegna í ósköpunum stór hópur eldri borgara og öryrkja á að lifa á 257.000 kr. fyrir skatt. Það er 40% minna en þetta. Hver reiknaði þetta út? Hvernig var það reiknað út? Hvers vegna í ósköpunum er þetta svona? Hvernig á að segja við þá einstaklinga sem eiga að lifa á 40% minna, 150.000 kr. minna á mánuði, að á sama tíma sé umræða um hækkun þingmannalauna um 70.000 kr. og allt upp í 127.000 kr.? Hvar eru lífskjarasamningarnir? Af hverju er krónutalan allt í einu horfin? Af hverju er allt í einu komin prósentutala? Hæstv. forsætisráðherra benti á það í umræðu að launaþróun á almennum markaði og launaþróun hjá ríkinu gæfi þessa 6,3% hækkun. Þó stendur í 69. gr. almannatryggingalaga að bætur almannatrygginga skuli hækka samkvæmt launaþróun. Sú launaþróun var um síðustu áramót 3 komma eitthvað prósent, helmingi minna. Er það einhver önnur launaþróun?

Svona á ekki að reikna hlutina. Það hlýtur að vera kominn tími á að fá skýringu á því hvers vegna í ósköpunum við höfum þetta svona ár eftir ár.

Eins og komið hefur fram í umræðunni liggur margt fyrir og það er margt sem þarf að gera. Það sem við þurfum að tryggja númer eitt, tvö og þrjú er að allir fái þá hjálp sem þeir þurfa á að halda. Við verðum líka að tryggja að við hættum að mismuna fólki bara af því að það er hægt. Ef við reiknum það út í lífskjarasamningum að fólk þurfi 20.000–24.000 kr. hækkun á mánuði næstu þrjú, fjögur árin, hvernig í ósköpunum ætlum við að láta þá sem hafa það best fá mest? Það er verið að tala um að afþakka þessa hækkun. Það er ekki hægt. Við erum búin að læra að við getum ekki sett afturvirk lög. Við lærðum það af skerðingum á lífeyrissjóði eldri borgara. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessu er eina leiðin hreinlega að setja lög og gera það á einum degi að skerða launin okkar aftur. Það er eina leiðin. Annars fáum við þessa hækkun. Það verður ekki hægt að stoppa það nema á þennan eina hátt, að sjá til þess að skerða (Forseti hringir.) eftir á.