150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar einu skeiði lýkur í lífi okkar eru fyrstu skrefin inn í það næsta afar mikilvæg. Við stöndum frammi fyrir slíkum kaflaskiptum í samfélaginu. Það skiptir miklu máli hvað stjórnvöld ákveða að gera núna, hvernig skammtímaviðbrögð hafa verið og hvernig þau verða og að hvernig samfélagi þau stuðla eftir Covid-19, hvernig þau leggja drög að nýjum kafla í sögu íslensks samfélags, því að það mun margt breytast og við getum fengið góða niðurstöðu, bara ef við viljum. Þessa dagana kemur svo skýrt í ljós úr hverju samfélög eru byggð, samfélög eins og þau norrænu með sterkt heilbrigðis- og velferðarkerfi fyrir alla, samfélög sem hafa staðist ágjöf frjálshyggjunnar að mestu, munu komast best frá þessu neyðarástandi. Lönd eins og Bandaríkin með gott heilbrigðiskerfi fyrir suma en ekkert fyrir aðra, þar sem markaðurinn ræður för og líka í velferðarmálum, fara illa. Það sjáum við m.a. á dánartölum fátækra blökkumanna í Bandaríkjunum. Svo eru það ríkin þar sem stutt er í alræðistilhneigingar og einræðisherrar nýta faraldurinn til að herða tökin og troða á mannréttindum.

Við sjáum veikleika samfélags okkar í ójöfnuðinum. Byrjum á því að laga það brýnasta. Nú þegar svo margir hafa misst vinnuna verðum við að vinna gegn vaxandi fátækt og sjá til þess að fólk neyðist ekki til að framfleyta sér á greiðslum undir fátæktarmörkum. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Bæturnar eru allt of lágar og eru langt undir lágmarkslaunum. Til að bæta hag barna leggjum við til að barnabætur verði hækkaðar og viðmiðum breytt þannig að barnafjölskyldur sem í ár hafa orðið fyrir miklu tekjutapi fái barnabætur. Við höfum nú þegar lagt til með frumvarpi, sem er til vinnslu í velferðarnefnd, að greiðslur almannatrygginga hækki til jafns við lífskjarasamningana til að bæta stöðu öryrkja og eldri borgara sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.

Sveitarfélögin gegna stóru hlutverki og samvinna ríkis og sveitarfélaga þarf að vera góð og þar þurfa samskiptaleiðir að vera greiðar. Sveitarfélögin missa tekjur líkt og ríkið og á sama tíma eru gerðar kröfur til þeirra um aukin útgjöld en þau geta ekki prentað peninga. Það verður að gera þeim kleift að sinna börnum, fötluðum og öldruðum og tryggja sterka félagsþjónustu við þessar erfiðu aðstæður. Setja þarf inn hærri fjárhæðir til sóknaráætlana landshluta, einkum í menningarhlutann og í nýsköpun.

Listamenn hafa misst tækifærin til tekjuöflunar um stund og stjórnvöld ættu að efla menningarlíf í ástandinu úti um allt land. Stjórnvöld verða að koma með frekari aðgerðir fyrir minni fyrirtæki, námsmenn, viðkvæma hópa og heimili. Mörg heimili munu verða fyrir miklum búsifjum, ekki síður en fyrirtækin. Það verður að mæta rekstrarvanda þeirra líkt og fyrirtækja og ekki er hægt að bíða lengi með úrræði í þeim efnum. Margar sögur er hægt að segja um vanda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Sum þeirra þurfa að greiða fyrirframgreiddar pantanir til baka, stundum með yfirdrætti á háum vöxtum og bera einnig kostnað vegna falls krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Vandinn vefur upp á sig með ýmsum hætti og óvissa um framtíðina er alger og bankar verða að standa sig í þessu ástandi. (Forseti hringir.) Stjórnvöld og Seðlabankinn hafa gert þeim kleift að mæta fyrirtækjum og heimilum og það eiga þau að gera. Það þurfa allir að sýna samfélagsábyrgð við þessar aðstæður, líka bankar og útgerðarmenn. (Forseti hringir.) Ég vil taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hún hvetur útgerðarmenn til að draga til baka (Forseti hringir.) kröfur á hendur ríkinu vegna makrílkvótans.

(Forseti (BN): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)