150. löggjafarþing — 87. fundur,  14. apr. 2020.

framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis .

719. mál
[15:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur að þetta er í rauninni jákvætt mál og þannig séð nauðsynlegt eins og ástandið í samfélaginu er í dag. Að geta safnað meðmælum með rafrænum hætti er eðlilegt viðbragð við samkomubanninu sem nú ríkir. En það er spurning, fyrst ráðherra er búinn að setja sig á mælendaskrá á eftir mér, hvort við myndum kannski fá að heyra hvernig er með kosningarnar í víðara samhengi, hvort búið sé að áhættumeta framkvæmd kosninganna, sem verða í endann á þeim aðgerðum sem væntanlega verður aflétt í skrefum eftir maí, vegna þess að þó að við leysum meðmælendalistana með þessu frumvarpi þá er kosningaathöfnin sjálf öll eftir.

Það eru tvö, þrjú atriði sem mig langar að nefna örstutt. Í fyrsta lagi, eins og hv. þingmaður kom inn á, eru gerðar breytingar til bráðabirgða. Ég held að það sé mjög góð vinnuregla, sem hefur myndast í nefndum þingsins, að á þessum tímum þar sem mál eru samin með miklu hraði þá séum við ekki að gera miklar grundvallarbreytingar á lögum vitandi að þær munu ekki fá þá þinglegu meðferð sem okkur finnst eðlilegt að grundvallarbreytingar fái.

Í öðru lagi langar mig að nefna þá stöðu sem við höfum varðandi auðkenningarþjónustu hins opinbera. Island.is býður upp á þrjár auðkenningarleiðir, mistryggar, sem þó eru allar í rauninni tryggari en sú framkvæmd sem verið hefur á söfnun meðmæla með forsetaframboði. Það er miklu auðveldara að skrifa einhvern haug af nöfnum á pappírslista en að skrá fólk í gegnum Íslykil, styrktan Íslykil, eða rafræn skilríki á island.is undir fölsku flaggi. Það er sama hvaða innskráningarleið island.is verður fyrir valinu, þær eru allar tryggari en núverandi kerfi. Rétt er að geta þess að lægsta stig auðkenningar sem island.is býður upp á, bara hreinn og klár Íslykill, sem er kennitala og lykilorð, er talið nægjanlega tryggt fyrir safnanir undirskrifta vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Ég myndi halda að þetta væri svona ákveðið viðmið sem mætti hafa í huga varðandi framkvæmdina á söfnun meðmæla fyrir forsetaframboð.

Annað sem ég vil nefna er að við skulum horfast í augu við það að með því að krefjast auðkenningar sem ekki er krafist á pappír erum við að hækka þröskuld í lýðræðislegri þátttöku. Þetta munum við væntanlega takast á við á næsta vetri þegar við fáum til okkar frumvarp um heildarendurskoðun allra kosningalaga. En þetta er umhugsunaratriði. Það er mikilvægt að lýðræðisleg þátttaka sé eins einföld og eins aðgengileg og mögulegt er, annars er hún ekki lýðræðisleg. Með því að opna fyrir rafræna söfnun meðmæla erum við að auka aðgengið, en við erum á sama tíma, með því að krefjast auðkenningar, að hækka þröskuldinn. Hérna þarf að gæta meðalhófs svo við gerum kerfið ekki óaðgengilegra fyrir almenning.

Að því sögðu vil ég taka undir góð orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd breyttum frumvarpinu frá því sem upphaflega var lagt upp með, þannig að ég held að sú útfærsla sem hér er til afgreiðslu sé það besta sem við getum náð og engin ástæða til að halda annað en að fullur einhugur sé á þinginu um það.