150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

nýr aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að bregðast við þessari fyrirspurn í ljósi þess að við höfum hugsað okkur að kynna aðgerðir okkar á morgun. Ég get þó sagt að öll þessi atriði sem eru nefnd hérna eru sérstaklega til skoðunar. Við höfum frá upphafi verið að horfa til smærri fyrirtækja. Þar eru flest störfin og samkvæmt öllum hefðbundnum skilgreiningum á litlum og meðalstórum fyrirtækjum erum við að tala um bróðurpartinn af öllum fyrirtækjum í landinu. Já, við horfum til fyrirtækja sem hefur verið gert að loka starfsemi sinni og við höfum verið að spyrja okkur hvernig við getum komið til móts við þeirra sérstaka vanda, hvað sé sanngjarnt að gera í því. Við höfum sömuleiðis tekið eftir umræðunni um stöðu fjölmiðlanna og við höfum gert okkur grein fyrir því að hlutabótaleiðin svarar ekki öllum álitamálum sem upp koma hjá fyrirtækjum sem hafa kannski ekki þörf fyrir allt það starfsfólk sem er þar með ráðningarsamband. Ég er þeirrar skoðunar varðandi þann þáttinn sérstaklega að það hafi töluvert syrt í álinn frá því að við kynntum fyrstu aðgerðir okkar, frá því t.d. að hlutastarfaleiðin var lögfest hafi útlitið ekki batnað. Það kallar á umræðu um það með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur að mánuðirnir eftir að hlutastarfaleiðinni lýkur samkvæmt lögum eigi að líta út. Þar er um mjög krefjandi stöðu að ræða, ekki síst vegna þeirra fyrirtækja sem hafa jafnvel ekkert við starfsmenn að gera á komandi mánuðum en vilja leita leiða til þess að finna sér einhvern grundvöll í samtali við kröfuhafa, fjármálastofnanir, aðra sem eru tilbúnir til að veita fyrirgreiðslu, þannig að menn komist í skjól meðan versta og mesta óveðrið gengur yfir.