150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

nýr aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir að það skiptir mjög miklu máli að við séum að vinna með einhverjar meginreglur og það sé gegnsæi um beitingu þeirra úrræða sem við erum að kynna til sögunnar. Þannig höfum við t.d. lögleitt eftirlitsnefnd með brúarlánunum og það kemur til greina að sú nefnd fái útvíkkað hlutverk eftir því hvernig tillögum ríkisstjórnarinnar, sem eru væntanlegar, verður tekið.

Ég fagna sömuleiðis áherslu hv. þingmanns á það að koma efnahagsstarfseminni aftur í gang vegna þess að það er jú meginverkefni okkar. Það sem er að í augnablikinu er ekki að velferðarnetið okkar sé ekki nægilega þéttriðið. Við erum með öflug stuðningskerfi. Við erum líka með sjálfvirka sveiflujafnara og þeir eru einmitt að gegna sínu hlutverki núna eins og þeim er ætlað. Það sem er að er að það er stór hola í tekjuöflun og verðmætasköpunin hefur fallið í landinu og við eigum að beina öllum kröftum okkar að því að laga það vandamál. Það er grunnurinn að öllum áhyggjum okkar.