150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

vextir og verðtrygging.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vísa til þennan morguninn sem hv. þingmaður vísar til var einfaldlega hver markaðskrafan var þann daginn. Ég hefði kannski frekar átt að tala um ávöxtunarkröfuna á þessi bréf. Við höfum sem sagt náð þeim árangri á undanförnum árum að trúverðugleiki opinberra fjármála hefur vaxið þannig að þegar Seðlabankinn grípur til eins stórra aðgerða og þarna átti við og lækkar vexti hafa menn trú á aðgerðum bankans. Það birtist í viðbrögðum markaðsaðila. Með því að lesa í viðskipti með fjármálagerninga sem taka til nokkurra ára inn í framtíðina má sjá hver trú markaðarins er hvað varðar vexti og verðbólgu til framtíðar. Um það vorum við að ræða þennan morguninn.

Mér finnst skorta í málflutning hv. þingmanns að láta þess getið að við höfum aldrei áður, a.m.k. ekki síðan ég fæddist, haft jafn hagstæða vexti í landinu og á við í dag, t.d. á húsnæðislánum. Vextir Seðlabankans hafa aldrei áður verið lægri. Sumum finnst að þeir ættu að vera enn lægri en þeir eru í dag og vísa til þess að þeir hafi í hlutfalli við þá vexti sem voru til staðar áður en þessi Covid-faraldur reið yfir lækkað minna hér á landi en annars staðar. Mögulega eigum við inni frekari vaxtalækkanir en ef umræðan á að snúast um vextina sem slíka verðum við a.m.k. að halda því inni í umræðunni að þeir hafi aldrei áður verið hagstæðari.

Svo getum við tekið aðra umræðu um það hvort einhver hætta verði á verðbólguskoti. Ég er bara eins og aðrir hvað það snertir, að um leið og maður sér einhver merki um hættu á verðbólgu er ástæða til að hafa áhyggjur. Enn sem komið er gerir enginn ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Það er bara staðreynd.