150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

kostnaður vegna bakvarða í heilbrigðiskerfinu.

[15:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég óska eftir að eiga orðastað við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um fjármagn til heilbrigðiskerfisins í kjölfar Covid-faraldurs. Heilbrigðisráðuneytið kallaði eftir heilbrigðismenntuðu starfsfólki í svokallaða bakvarðasveit og svöruðu margir kallinu. Sem dæmi voru ráðnir 50 bakverðir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, sem er rúm 30% aukning á starfsfólki. Á Landspítala voru ráðnir 137 bakverðir, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar og fleiri, auk fjölda starfsfólks sem áður var hjá Isavia sem nú hefur verið þjálfað í annars konar störf á Landspítala. Heilbrigðisstofnunum hefur verið gert að halda saman kostnaði sem leiðir beint af baráttunni við Covid-veiruna og senda stjórnvöldum reglulega. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi einhverja yfirsýn yfir þann kostnað sem nú þegar hefur fallið til vegna bakvarðasveita og hvenær það verður gert upp.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórn Íslands hyggist fara sömu leið og t.d. í Svíþjóð, í Noregi, í Þýskalandi og víðar og nýta þær heimildir sem fyrir eru í kjarasamningum opinberra starfsmanna þess efnis að greiða starfsfólki aukalega vegna starfstengds álags nú á Covid-tímum. Í Svíþjóð var t.d. farin sú leið að tvöfalda laun þeirra og í Þýskalandi fær framvarðasveitin 250.000 kr. skattfrjálsa greiðslu vegna faraldurs.

Þar sem nauðsynlegt er fyrir heilbrigðisstofnanir um allt land að fá skýr svör um fjármagnið spyr ég hæstv. ráðherra í lokin hvort ríkisstjórnin muni tryggja heilbrigðisstofnununum framlag í fjárauka núna svo ekki fari á milli mála að þeim verði veitt nauðsynlegt fjármagn í reksturinn en ekki bara einhver óljós loforð inn í mjög óvissa framtíð.