150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

kostnaður vegna bakvarða í heilbrigðiskerfinu.

[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að við höfum rætt þetta áður. Það er alveg skýrt að allur ófyrirséður kostnaður sem heilbrigðiskerfið tekur á sig út af þessum faraldri þarf að koma inn í fjárauka síðar á þessu ári þegar heildartalan liggur fyrir. Það þarf enginn að efast um að fjárheimildir verða tryggðar til heilbrigðisstofnana til að takast á við allan viðbótarkostnað út af faraldrinum.

Hvað varðar heilbrigðisstarfsfólkið sem hefur verið í framlínunni höfum við líka hugsað til þess hóps sérstaklega. Við munum greina nánar frá því síðar hvernig við viljum koma til móts við hann.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál séu í ágætisfarvegi. Það er rétt að það eru dæmi frá öðrum löndum, í fyrsta lagi um að stjórnvöld hafi komið því skýrt til skila að heilbrigðiskerfið verði fjármagnað. Ég tel að við séum í þeim hópi ríkja sem hafa gefið þá yfirlýsingu. Það á ekki að vera neinn vafi um að við ætlum að fjármagna heilbrigðiskerfið vel í gegnum þennan faraldur. Síðan er í hinum ýmsu löndum gert ráð fyrir því fyrir fram, eins og mér fannst hv. þingmaður koma inn á, að komið geti til sérstakra álagsgreiðslna í kjarasamningum í viðkomandi ríkjum. Að þessu leytinu til er ekki alveg hægt að jafna saman við stöðuna á Íslandi þar sem við erum ekki með viðvarandi slík ákvæði, hvorki í lögum né kjarasamningum, en hins vegar hefur það verið tekið sérstaklega til skoðunar og við munum greina frá því síðar eins og ég vék að.