150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

kostnaður vegna bakvarða í heilbrigðiskerfinu.

[15:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Varðandi það að slíkt ákvæði sé ekki í kjarasamningum opinberra starfsmanna hér á landi virðist það ekki vera rétt hjá hæstv. ráðherra. Þetta er t.d. ein af tillögum BSRB þar sem bent er á að þetta er í samningum þar.

Um viðbótarkostnaðinn og það að heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum séu gefin skýr svör núna en ekki einhvern tímann í lok ársins. Það er líka þannig að valkvæðum skurðaðgerðum, eins og þær eru kallaðar, sem eru auðvitað ekki val þegar fólk kemst ekki fram úr rúminu vegna nauðsynlegra aðgerða, hefur verið frestað og þá þarf auðvitað að mæta heilbrigðisstofnunum með viðbótarfjárframlagi hvað það varðar.

Ég hef áhyggjur af heilbrigðiskerfinu okkar. Þrátt fyrir að þar hafi allir hlaupið alveg ofboðslega að undanförnu hef ég áhyggjur af hjúkrunarheimilum sem eru vanfjármögnuð, heilbrigðisstofnunum sem eru vanfjármagnaðar. (Forseti hringir.) Hjúkrunarheimili sem eru rekin af sveitarfélögum verða nú fyrir miklu höggi.

Ég ítreka því spurningu mína: Mun ríkisstjórnin taka tillit til þess í næsta pakka (Forseti hringir.) til að þessir rekstraraðilar fái skýr svör um að tryggt verði fjármagn í slíka starfsemi?