150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

kostnaður vegna bakvarða í heilbrigðiskerfinu.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að þess eru dæmi að við höfum einhvern stuðning við slíkar aðgerðir í einstaka kjarasamningum, en ég átti við það í minni fyrri ræðu að ég held að við séum ekki að öllu leyti með sambærilegt fyrirkomulag í kjarasamningum og hefur t.d. verið vísað til í Svíþjóð. Þetta hefur þó allt verið til skoðunar og ég er sammála hv. þingmanni um að svar gagnvart heilbrigðisstéttunum getur ekki beðið fram á haustið eða fram undir lok árs. Við munum bregðast við því.

Síðan verðum við að halda áfram umræðunni um fjármögnun einstakra heilbrigðisstofnana. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hefur aftur hallað talsvert undan fæti hjá heilbrigðisstofnununum eftir að við kláruðum rammasamning hérna fyrir nokkrum árum. Það er eins og að það þurfi að nýju að taka upp fjármögnun heilbrigðisstofnana, en ég ætlaði að tala um hjúkrunarheimilin sérstaklega núna. Við kláruðum rammasamning fyrir þau fyrir nokkrum árum og rekstrarstaða þeirra virðist hafa versnað talsvert síðan það var gert (Forseti hringir.) og á því þarf að taka.