150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að heimila ýmist varanlega eða til bráðabirgða rafræna meðferð, málsmeðferð og notkun fjarfundabúnaðar við fyrirtöku mála af ýmsu tagi eins og komið hefur fram. Einnig hefur komið fram í tilkynningu mjög hörð gagnrýni á frumvarpið frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Samtökin gagnrýna harðlega 10. gr. frumvarpsins, um aðfarargerðir, og 12. gr., um nauðungarsölur.

Í umsögn samtakanna kemur fram, með leyfi forseta:

„Báðar eru þær orðaðar þannig að heimilt verði að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna. Ekkert er minnst á gerðarþolanda í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns.“

Þetta er mjög hörð gagnrýni sem kemur frá mikilvægum samtökum og auk þess gagnrýna þau einnig framkvæmd þessara fyrirhuguðu fjarfunda. Þau segja einnig í umsögn sinni eða gagnrýni að þetta séu hreinlega fáránlegar tillögur á þessum tímapunkti og þjónkun við gerðarbeiðendur og gróf mismunun í garð gerðarþola.

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að fá álit hæstv. ráðherra á þessa hörðu gagnrýni sem birtist núna strax í upphafi málsins, en samtökin munu væntanlega senda inn umsögn til nefndarinnar þegar málið verður komið þangað.