150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mig langar að upplýsa forseta og þingið um það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hafði samband við mig og sagði að ekki stæði á honum eða ráðuneyti hans að koma fyrir atvinnuveganefnd til að ræða þau mál, eins og fjórðungur nefndarinnar hefur með stjórnarskrárbundnu aðhaldshlutverki sínu óskað eftir að hann geri. Hann sagði að það eina sem hann hefði vitað um væru Covid-málin sem hann sjálfur er með þegar við báðum hann að koma á fund nefndarinnar. Hann og ráðuneyti hans hafi ekki vitað af því að fjórðungur nefndarinnar hefði óskað eftir því fyrir um tveimur mánuðum að við myndum ræða kvótaþakið og hvernig fiskeldisfrumvarpið hafi gengið gegn fjórum ákvæðum EES-sáttmálans. Hið síðara er nýlegt en hið fyrra tveggja mánaða gamalt.

Ég ætla að rannsaka þetta frekar. Ég hef reynt að hafa samband við forstöðumann nefndasviðs. Þetta verður að vera í lagi. Það verður að vera þannig að nefndir geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Ég mun upplýsa landsmenn um þetta. Það gerist ítrekað á þingi að hlutir gleymast og detta niður og svo afsaka menn sig bara. En ég ætla að taka ráðherra á orðinu. Hann mætir þá fyrir nefndina nema ríkisstjórnardagur sé, þannig að við getum klárað þetta. Ég mun síðan reyna að finna út úr því hvar þetta féll niður.