150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

nefnd til að fylgjast með upplýsingaóreiðu.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég geri ráð fyrir að hér á eftir verði heilmikil umræða um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og að hún muni halda áfram næstu daga. Ég vil því nota tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra út í annað mál sem varðar viðbrögð ríkisstjórnarinnar við því ástandi sem nú ríkir, heimsfaraldrinum. Þjóðaröryggisráð Bretlands og eflaust ýmissa annarra ríkja hafa fundað daglega til að ræða viðbrögð við þessu ástandi. Mér skilst að íslenska þjóðaröryggisráðið hafi ekki fundað til að ræða málið en þó ákveðið núna að stofna vinnuhóp til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid-19 og koma svo með tillögur til að sporna gegn þeirri upplýsingaóreiðu. Hvað er hæstv. forsætisráðherra að leggja til með þessu? Níu eða tíu manna nefnd sem á að fylgjast með því sem sagt er um þennan faraldur? Varla á að fara að ritskoða íslenska fjölmiðla. Er þá ætlunin að reyna að fylgjast með netinu og leiðrétta allt það bull sem kynni að finnast þar? Þetta finnst mér afar sérkennilegt, herra forseti, og dálítið skuggalegt ef stjórnvöld ætla að fara að skipta sér af með þessum hætti, enda eru líklega fá mál sem menn eru eins vel upplýstir um á Íslandi og faraldurinn. Almannavarnir hafa haldið daglega blaðamannafundi, sem er mjög lofsvert, og almenningur verið mjög vel upplýstur um málið. Hvers vegna í ósköpunum stendur til að stofna allt að tíu manna nefnd til að fylgjast með og búa til tillögur gegn upplýsingaóreiðu? Mér finnst þetta reyndar sérstaklega áhyggjuefni í tengslum við það sem ríkisstjórnin leggur til varðandi útfærslu á framlögum til fjölmiðla sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) í seinni fyrirspurn.