150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

nefnd til að fylgjast með upplýsingaóreiðu.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ekki hafa áhyggjur mínar minnkað við að heyra svar hæstv. forsætisráðherra. Ég hélt því reyndar ekki fram að þjóðaröryggisráð hefði aldrei talað um þessi mál en benti á að það hefði ekki fundað um þau í líkingu við það sem hefur verið annars staðar og allt í lagi með það. Almannavarnir hafa haldið vel utan um þetta. En þegar svo ráðið fundar eða a.m.k. ræðir málin á einhvern hátt er tillagan að fara að reyna að ritstýra fréttum, að því er virðist. Hæstv. ráðherra vísar í það að fréttir hafi birst t.d. á öðrum Norðurlöndum sem hafi ekki verið alveg réttar. Er það nú hlutverk stjórnvalda að fara að ritskoða fréttir? Er fólki ekki treystandi til að fylgjast með upplýsingafundum almannavarna og meta þetta sjálft? Þetta er áhyggjuefni, sérstaklega í samhengi við það þegar ríkisstjórnin leggur til að við útdeilingu á fjármagni til fjölmiðla fái ráðherra menntamála ótrúlegar heimildir í reglugerð til þess að útdeila því fjármagni .

Mér finnst það alveg með ólíkindum, herra forseti, að ætlast sé (Forseti hringir.) til þess að ráðherra fjölmiðla fái að stjórna því sjálfur í reglugerð hvernig fjármagni er útdeilt til fjölmiðla.