150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

framfærsluviðmið.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni sem segist vera eins og biluð plata en það er ekkert að því að vekja máls á þeim málefnum sem standa hjarta manns næst. Ég tek því ekki undir með hv. þingmanni um það. Ég vil þó segja í fyrsta lagi hvað varðar listamannalaun að þau lúta öðrum lögmálum en til að mynda laun almannatrygginga, hvort sem er til öryrkja eða eldri borgara, eða atvinnuleysisbætur þar sem um listamannalaunin er sótt í tiltekin verkefni. Sumir fá þrjá mánuði, aðrir fá sex mánuði, þeir sem fá mest fá þrjú ár. Það er lengsti mögulegi tíminn og þá úthlutun fá ekki margir. Listamannalaunin miðast við það að fram fari mat á þeim verkefnum sem sótt er um og ekki fá allir þessi laun. Það er erfitt að bera þetta saman þó að ég taki undir með hv. þingmanni að það er gott að fjölga þessum launum af því að við vitum að bæði er listin mikilvæg í sjálfri sér en hagræn áhrif hinna skapandi greina eru líka ótvíræð.

Hvað varðar öryrkja og eldri borgara hins vegar vil ég segja að það er ekki ár síðan Alþingi afgreiddi frumvarp um að draga úr skerðingum til öryrkja. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er ekki óbreytanlegt ástand. Hér voru stigin fyrstu skrefin í því að draga úr skerðingum og í þau skref var varið u.þ.b. 2,5 milljörðum þannig að það var mikilvægur áfangi til að koma til móts við kröfu öryrkja um að úr þessum skerðingum skyldi dregið.

Hvað með aldraða? spyr hv. þingmaður. Inni í þinginu liggur frumvarp félags- og barnamálaráðherra um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða sem unnið var í miklu samráði við samtök eldri borgara þar sem lagst var í að greina hvaða hópar meðal eldri borgara stæðu verst og hvernig væri unnt að koma til móts við þá. Niðurstöðurnar birtast að einhverju leyti í því frumvarpi.