150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

alþjóðasamvinna.

[11:05]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég treysti mér ekki til að koma með heildrænt yfirlit yfir það á næstu tveim mínútum hvað ég hef verið að gera að undanförnu en vil svo sannarlega gera allt sem ég get til að upplýsa hv. þingmann og þing og þjóð um það, það er auðvitað ekki nema sjálfsagt. En það verður ekki gert núna á þessum tveim mínútum.

En bara almennt, ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara um að Ísland sé ekki að taka forystu í þessum málum. Ísland hefur auðvitað tekið forystu með því fordæmi sem Ísland hefur sýnt þegar kemur að baráttunni gegn veirunni. En á sama tíma, af því að hv. þingmaður talar um mikilvægi þess, og það er mikilvægt, sama hvað við förum í mikla björgunarpakka og í hvaða aðgerðir við förum, efnahagskerfið, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, mun ekki taka við sér fyrr en landamæri opnast aftur. Svo einfalt er það. Hvernig verður það gert? Það er eitt af því sem við höfum haft vakandi auga með og rætt um á öllum þeim fundum sem ég hef tekið þátt í og eru þeir fjölmargir. Þeir eru að vísu fleiri en áður því að núna eru allir tilbúnir, sem betur fer, að nýta fjarfundabúnað og fagna ég því sérstaklega.

Við höfum verið að velta upp hugmyndum, ekki ósvipuðum og hv. þingmaður nefndi, hvernig best er og hvernig á að stíga fyrstu skrefin þegar kemur að opnun. Hvernig getum við stigið fyrstu skref án þess að ógna þeim árangri sem við höfum náð nú þegar? Það er í rauninni stóra spurningin. Hv. þingmaður vísaði til tvíhliða samskipta. Það er eitt af því sem kemur til greina og ég hef litið til þess. Þegar kemur að næstu nágrönnum okkar, Færeyingum og Grænlendingum, hafa þeir sömuleiðis náð góðum árangri. En önnur lönd af þessum bandalagsþjóðum okkar hafa náð mismunandi árangri. Við verðum alltaf að vera með augun á boltanum hvað það varðar og það er það sem við erum svo sannarlega að gera, hvernig við getum losað okkur út úr þessu og opnað aftur.