150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

alþjóðasamvinna.

[11:09]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að taka þessa fyrirspurn alvarlega, svo ég segi bara alveg eins og er. Þegar hv. þingmaður segir að alþjóðastarf hafi ekki verið í gangi, til hvers er hann að vísa? Er hv. þingmaður eini Íslendingurinn sem hefur ekki tekið eftir því að við höfum t.d. verið að vinna að því með öðrum þjóðum að komast Íslendingum heim? Er hv. þingmaður eini Íslendingurinn (Gripið fram í.) sem vissi ekki af því? Hann er ekki að tala um það. Er það ekki alþjóðleg samvinna? (Gripið fram í.) Er það ekki alþjóðleg samvinna, virðulegi forseti?

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Það er hrein og klár alþjóðleg samvinna og gott dæmi um hana. Það er ekkert leyndarmál að það hefur verið í forgangi hjá okkur að hjálpa Íslendingum að koma heim og það er ekki lítil vinna sem hefur farið í það. Ef hv. þingmaður heldur að vandamálið þegar kemur að því að opna landamæri sé framtaksleysi Íslands, þá er hv. þingmaður á miklum villigötum. En svo veit ég ekki hvort hv. þingmaður var að grínast í þessum fyrirspurnum sínum eða ekki.

Stutta svarið við því hvað við erum búin að vera að gera er að við höfum svo sannarlega verið virk á alþjóðlegum vettvangi. (Forseti hringir.) Þar hefur Norðurlandasamstarfið sérstaklega nýst Íslendingum vel og öðrum Norðurlandaþjóðum, en annað samstarf líka. Við höfum svo sannarlega ekki gert neitt annað en að gefa þau skilaboð og lagt grunninn (Forseti hringir.) að því að reyna að opna landið þegar tækifæri gefst til þess.