150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einhver versta hugmynd sem ég heyrt, að nú sé ástæða til að fara að stórfjölga opinberum störfum. Ég held að það sé ekki verkefnið. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvert vandamálið er. Vandamálið er störfin í einkageiranum sem eru að hverfa. Það er rót vandans eins og ég fór yfir áðan. Ef við vinnum ekki bug á því ástandi munum við ekki hafa efni á samneyslunni eins og við höfum stillt útgjaldastigið af á undanförnum árum. Við munum einfaldlega ekki hafa tekjur til ríkissjóðs til að greiða bætur almannatrygginga, reka menntakerfið, reka heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna, standa undir samgöngukerfinu o.s.frv. Það er hættan sem við stöndum frammi fyrir þannig að aðgerðir okkar hljóta að eiga miðast við að örva að nýju starfasköpun í samfélaginu. Ég held að hlutinn sem snýr að rannsókn, þróun og nýsköpun sé mjög líklegur til að skila árangri í því efni.

Varðandi fjölmiðlana er svarið mjög einfalt. Það er fjárheimild í dag. Það er undir þinginu komið að afgreiða frumvarpið eða ekki. Hérna er verið að leggja til viðbótarfjárheimild. Ef hún verður samþykkt mun hún nýtast í þeim tilgangi. (Forseti hringir.) Þingið verður síðan að ákveða hvað á að vera með frumvarpið og þar með hina fjárheimildina sem er fyrir utan þetta mál.