150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Miðflokkurinn styður þennan aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og hefur stutt allar tillögur ríkisstjórnarinnar til að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða að taka mið af því að niðursveiflan verði meiri en svartsýnustu spár gera ráð fyrir. Hún verður að hafa í huga undir hvaða aðstæður við erum að búa okkur. Ríkisstjórnin hefur ekki gert það að mínu mati og okkar í Miðflokknum og virðist vera hrædd við að horfast í augu við það að þessi niðursveifla er dýpri en svartsýnustu menn gerðu ráð fyrir.

Ríkisstjórnin hefur talað um samstarf og samvinnu og kallað eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni. Ég verð að segja að við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ekki hefur verið hlustað á þær tillögur. Við komum með tillögu um að hækka framlagið til nýsköpunar, við komum með tillögu um álagsgreiðslur, við komum með tillögu til Suðurnesja. Allar þessar tillögur voru felldar fyrir þremur vikum, hæstv. fjármálaráðherra. Hvers vegna var verið að fella þessar tillögur? Hvers vegna voruð þið að fella tillögur sem þið komið síðan með hér núna? (Forseti hringir.) Á þessum tíma hafa liðið þrjár vikur, dýrmætur tími.