150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að því verði ekki haldið fram að menn hafi í fyrri aðgerðapakka lagst gegn því að greiða álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Hins vegar hefur í millitíðinni verið unnið að útfærslu á álagsgreiðslunum. Ég hefði svo sannarlega aldrei farið að beita mér gegn því að tillaga í því efni næði fram að ganga, þetta var kannski spurning um aðdragandann. Það á ekki að vera þannig eins og hv. þingmaður lýsir að það ráðist alfarið af því úr hvaða átt tillögur koma.

Hér er spurt um viðbótarlánin, þessi stuðningslán. Við sjáum þetta þannig að þegar horft er til samsetningar langflestra fyrirtækja sem eru á annað borð með launagreiðslur, með eitthvert starfsfólk hjá sér, eru þetta lítil fyrirtæki á Íslandi. Af um 18.000 fyrirtækjum í viðskiptahagkerfinu sjáum við að við erum að ná til svona 14.000. Það er rétt sem bent hefur verið á, það eru tiltölulega fá fyrirtæki sem eru með mjög hátt hlutfall af heildarveltunni. (Forseti hringir.) Ef við skoðum fjölda fyrirtækja sem eru með fáa starfsmenn náum við mjög vel til þeirra með þessari aðgerð.