150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið en verð að vera algjörlega ósammála honum. Það er grafalvarlegt mál að hafa ekki efni á að leita sér læknisþjónustu. Það er grafalvarlegt og getur orðið þjóðfélaginu margfalt dýrara en ella. Það er sannað að ef fólk getur ekki leitað sér læknishjálpar, hvort sem er við geðrænum vanda eða öðrum, bitnar það á þjóðfélaginu sem og á heilbrigðiskerfinu og verður margfalt dýrara. Ég held hreinlega að það ódýrasta og besta sem við gætum gert núna væri að segja við alla sem eru atvinnulausir, alla sem eru á lífeyrislaunum, að þeir fái ókeypis læknisþjónustu. Gerum þetta. Ég skal veðja við ykkur að það margborgar sig.

Ég efast ekki um að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála mér vegna þess að þetta er sannað. Í Bretlandi var t.d. gerð könnun á því hvaða áhrif sárafátækt hefði á fólk og að það gæti ekki leitað sér læknishjálpar. Það kom í ljós að það kostaði margfalt meira að gera ekkert en að laga þetta.