150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[11:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum með sérstakar kvaðir á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki í lögum og fyrir þinginu liggur frumvarp frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um auknar skyldur á endurskoðendur þegar í hlut eiga slík fyrirtæki og um upplýsingagjöf, skylda til að veita upplýsingar sem ella myndu kannski fyrst og fremst hvíla á skráðum fyrirtækjum. Við höfum verið að gera breytingar í þessa átt til að lágmarka hættuna á því að vandi fyrirtækja sem eru kerfislega mikilvæg komi dálítið í bakið á samfélaginu. Ég held að við séum ekki að glíma við það í augnablikinu. Ég held að við glímum við heimsfaraldur sem kemur þannig við efnahagslífið að við sjáum einn mesta samdrátt í heimshagkerfinu í 100 ár. Það er ekki takmarkað við einstakar atvinnugreinar. Með þessum aðgerðapakka eru stigin skref sem eru í góðum takti við okkar mat á stöðunni í dag.