150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að hnykkja á þessu atriði sem spurt hefur verið um varðandi fjölmiðlana þannig að það sé alveg skýrt. Ef Alþingi afgreiðir bæði þessa tillögu og frumvarp ráðherrans sem er hjá menntamálanefnd mun þurfa viðbótarfjárheimild inn í þetta frumvarp, af því það er ekki sérstök fjárheimild sem fylgir tillögunni um að ráðherrann hafi heimild til að semja. Þetta er dálítið í höndum þingsins. Ef þingið ákveður að gera hvort tveggja, bæði að samþykkja frumvarpið í nefndinni og veita ráðherranum heimild til að semja um allt að 350 millj. kr. greiðslur á þessu ári, þarf að tryggja sérstaka fjárheimild fyrir það til viðbótar við það sem þegar er í lögum. Hins vegar ef við afgreiðum bara þessa tillögu til ráðherrans fyrir árið 2020 eru nægar heimildir nú þegar í fjárlögum til þess að standa undir henni. Það myndi þá ráðast af því hvernig menntamálanefnd myndi afgreiða hitt frumvarpið, t.d. um gildistöku þess, frá hvaða tíma þyrfti að fjármagna það því að það væri lagaumhverfi til framtíðar.

Ég ætla að öðru leyti að segja að mér finnst hv. þingmaður ekki koma með neinar lausnir sem geta orðið til þess að auka aftur verðmætasköpun. Það sem hv. þingmaður fer inn á undir lok ræðu sinnar er auðvitað kjarnaatriði, nefnilega það að ef við búum ekki til tekjur í framtíðinni til að standa undir þeirri góðu opinberu þjónustu sem við búum við í dag erum við í miklum vanda stödd. Þá verða valkostirnir tveir. Annars vegar að halda áfram hallarekstri og lántökum og velta þannig reikningnum fyrir góðri þjónustu sem við njótum í dag yfir á framtíðarkynslóðir, senda reikninginn á framtíðina, á unga fólkið og börnin í dag og börn framtíðarinnar og segja: Við þurftum einfaldlega á árinu 2020 og áfram á svo góðri þjónustu að halda að það verður bara einhver í framtíðinni að greiða fyrir það. Hins vegar, og þetta eru valkostirnir, að taka lán, að aðlaga sig að breyttum aðstæðum með því að draga úr kostnaði eða skapa ný verðmæti. Og það er það sem ég vil sjá gerast, (Forseti hringir.) að búa til ný verðmæti til að við getum áfram notið þessarar þjónustu.