150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar, pakkann vegna Covid. Það er eitt sem við höfum eiginlega ekki rætt og væri alveg kominn tími til að ræða og það er gjaldeyrisforði Seðlabankans. Síðast þegar ég vissi var hann rúmir 900 milljarðar, en KPMG var að gera skýrslu og þar kemur fram að lækkun gjaldeyristekna verður upp á 330 milljarða. Þar fer strax rúmlega einn þriðji af gjaldeyrisforðanum. Hann minnkar og við vitum líka hvernig ástandið er í sambandi við fisk og ál þannig að gjaldeyrisforðinn gæti horfið fljótt. Hvað þá?

Erum við kannski allt of róleg? Er kannski kominn tími til að við hugum að því að setja á gjaldeyrishöft? Hver verður staðan hjá okkur eftir eitt eða eitt og hálft ár? Við verðum að hugsa aðeins fram í tímann líka í þessu samhengi.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma um verðtrygginguna og hann benti í svari sínu á 0% vexti til 2026. Þar var hann að meina gjörning sem er á markaði með ríkisskuldabréf sem kemur almenningi og verðtryggðum lánum heimilanna ekkert við. Staðreyndin er sú að verðtryggðir samningar eru á húsnæðismarkaði, bæði í leigu og á lánum. Við megum heldur ekki gleyma að þeir sem enn eru þarna úti með lán frá Íbúðalánasjóði eru margir þeirra sem eru á lægstu laununum og öryrkjar. Þeir eru með óhagstæðustu lánin sem hægt er að hafa í dag. Þar hefur maður séð um 4,5% og jafnvel upp í 4,9% vexti ofan á verðtrygginguna. Þetta fólk hefur ekki haft möguleika á að breyta þessu. Það segir okkur líka að ef verðbólgan fer af stað er þetta hópurinn sem mun fara illa út úr þessu. Við þekkjum reynsluna og ég spyr: Lærðum við ekkert af hruninu? Það voru 15.000–16.000 heimili undir, Við vitum hverjar afleiðingarnar voru. Ráðherrar segja aftur og aftur í pontu að þeir hafi engar áhyggjur af verðbólgunni, að hún muni ekki fara af stað en samt segir hæstv. fjármálaráðherra blákalt að hann ætli ekki að sjá til þess að taka verðtrygginguna úr sambandi. Hann sneri út úr og sagði að ekki væri hægt að taka þetta inn í alla framtíð. Það var enginn að biðja um það, það er einfaldlega verið að biðja um að taka tímabundið úr sambandi verðtryggingu íbúðalána. Hvers vegna í ósköpunum ætti það að vera svona erfitt? Ráðherrar segja hvað eftir annað að við þurfum engar áhyggjur að hafa af verðbólgunni en samt hlýtur eitthvað að búa undir fyrst þeir vilja ekki gera þetta. Þeir þurfa að svara því.

Í þessum pakka á að efla geðheilsu, ég fagnaði því hér áðan og er gott. En við verðum þá líka að átta okkur á því að það er margsannað að það skiptir engu máli hversu aðgengileg læknisþjónusta og geðheilbrigðisþjónusta er ef fólk getur ekki nýtt hana af því að það hefur ekki efni á henni. Það skiptir engu máli hvort það er einn eða hundrað ef þeir sem mest þurfa á þessu að halda geta ekki nýtt sér þjónustuna vegna þess að þeir hafa ekki efni á henni. Þá erum við að búa til úrræði bara fyrir þá efnameiri. Í Bretlandi var gerð könnun sem sannar að sárafátækt styttir ævi fólks um 10–12 ár. Heilsa hinna fátæku er verulega skert vegna lélegs matar, lélegs aðgengis að heilbrigðsþjónustu og lélegs húsnæðis. Núna erum við í þeirri stöðu að við erum komin á ákveðið fjárhagslegt hrun en hvernig fór í bankahruninu? Erum við búin að gleyma því? Hæstv. fjármálaráðherra var hérna í ræðustól að verja það að stoppa ekki verðtrygginguna, það myndi bitna á eldri borgurum og almenningi í landinu, en er hann búinn að gleyma því hvað skeði með lífeyrissjóðina í hruninu? Ef við uppreiknum tapið er það ekki undir 1.000 milljörðum. Hversu miklar skatttekjur töpuðust þar? 400 milljarðar. Þetta er allt gleymt, eða hvað? Á sama tíma er bent á einhvern pakka sem er einhvers staðar í þinginu en ekkert á leiðinni. Hann á að bjarga eldri borgurum. Hvenær á það að vera? Af hverju í ósköpunum eru eldri borgarar gjörsamlega skildir eftir? Þeir eru hvergi nefndir á nafn. Jú, það má þakka fyrir það að verið er að taka á málum örfárra, verst settu einstaklingunum með búsetuskerðingar. Það er frábært og það ber að þakka. En á sama tíma er ekkert verið að spýta inn fyrir þá sem mest þurfa á að halda, öryrkja, eldri borgara og fólk á lægstu laununum, og eiga að reyna á einhvern undarlegan hátt að lifa á útborguðum rétt rúmum 200.000 kr., jafnvel láglaunafólk á að lifa af 280.000 kr. útborgað. Það segir sig sjálft að þetta gengur ekki upp.

Ef maður skoðar þennan pakka sem verið er að setja út eru 8,4 eða 8,5 milljarðar í félagslega pakkanum. Skoðum þessa 8,4 milljarða. Eigum við að setja þá í samhengi við svar sem ég fékk frá félags- og barnamálaráðherra um skerðingar gagnvart eldri borgurum og öryrkjum? Árið 2015 voru eldri borgarar skertir um 36 milljarða, 2019 44 milljarða, 20% hækkun. Á ég að segja ykkur enn þá skelfilegri sögu, hryllingssögu? Öryrkjar hafa skerst um 60% á þessu sama tímabili, úr 10 milljörðum í 16 milljarða. Er einhver hissa að árin 2018 og 2019 sé engin kaupmáttaraukning fyrir þennan hóp? Það er bara mínus niður. Á sama tíma hafa þeir séð til þess að hafa óbreytta krónutölu frá 2017, 25.000 kr. frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna, það eru öll ósköpin. Þetta er búið að vera svona frá 2017, ekkert hækkað og þar af leiðandi rýrnar það og gefur ekki sömu upphæð. Þess vegna er þetta aukin skattheimta á þá sem síst skyldi. Hið sama gildir t.d. um frítekjumark öryrkja sem hefur sennilega verið óbreytt í á annan áratug, 109.000 kr., ætti að vera vel yfir 200.000 kr. En ekkert skeður. Nei, það er bara fyrir framtíðina.

Það verður að segja líka að margt er ágætt í þessum pakka og því ber að fagna en eins og hefur komið fram snýr stærsti hlutinn að fyrirtækjunum. Það er fínt, en fyrirtækin eru ekkert ef heimilin hrynja og öfugt, ef heimilin standa líka illa hrynja fyrirtækin, þannig að þarna á milli þarf að vera jafnvægi. Það verður að sjá til þess að það sé jafnvægi.

Það er vissulega flott að það eigi að setja 2,2 milljarða í störf fyrir námsmenn en á sama tíma erum við líka með um 800 fyrirtæki sem geta sótt um hjálparleiðir sem kosta 28 milljarða. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því í þessu samhengi öllu að 8,5 milljarðarnir sem ríkisstjórnin setur í félagspakkann eru bara 12–13% af því sem hún skerðir í heild af launum eldri borgara og öryrkja á einu ári. Við höfum aldrei horft á þetta. Við þurfum líka að horfa á þetta í því samhengi að heildarskerðingar hjá eldri borgurum og öryrkjum eru upp á 60 milljarða. Það er svipað og eitt háskólasjúkrahús á hverju einasta ári. Hvernig í ósköpunum getum við látið þetta viðgangast? Ég ítreka að stærsti hópur öryrkja á að lifa á 255.000 kr. sem eru síðan skattaðar og skertar á keðjuverkandi hátt. Eldri borgarar eru með 257.000 kr., þeir sem verst standa, og það er skert. Atvinnulausir eru með 290.000 kr. óskert, listamannalaun 407.000, ekkert skert, listamenn mega vinna í þessum geira, selja og gera það sem þeir vilja. Hver bjó til þetta kerfi? Svo eru hlutalaunin sem við erum búin að semja um í pökkum upp á 400.000–700.000 kr. Þarna erum við með eina, tvær, þrjár, fjórar, fimm, sex, sjö mismunandi útfærslur. Það hlýtur að hafa kostað blóð, svita og tár og mikil heilabrot að finna út hvernig í ósköpunum er hægt að mismuna svona. Hvar er jafnræðið? Ég er búinn að spyrja og spyrja aftur og aftur, reyna að fá svör. Hver reiknaði þetta út? Hvers vegna er þetta svona? Er þetta náttúrulögmál? Svarið er: Nei, þetta er ákvörðun sem er tekin í þingsal, ákvörðun sem er varin og henni viðhaldið ár eftir ár. Þá hljótum við að spyrja: Hvers vegna?

Við hljótum líka að spyrja í samhengi við það að við megum ekki gleyma því að fyrir síðustu kosningar sendi hæstv. fjármálaráðherra bréf til allra eldri borgara landsins. Hverju var hann að lofa þar? Hann lofaði því hreint og klárt að hætta skerðingum og leiðrétta skerðingar eldri borgara frá 2009. Hefur það skeð? Nei. Mun það ske? Ekki meðan þessi ríkisstjórn er við völd. Það er alveg á hreinu. Hún ætlar bara að viðhalda þessu ótrúlega óréttláta kerfi sem virðist lúta þeim rökum að ekki sé til jafnrétti, réttlæti eða mannréttindi vegna þess að það er ekki jafnrétti, réttlæti eða mannréttindi að segja við fólk: Þú átt að lifa á 150.000 kr. minna en einhver annar og fá skerðingu og skatta. Við ætlum að sjá til þess að þú fáir læknishjálp, geðræna hjálp og allt saman en við ætlum líka að sjá til þess að þú hafir ekki efni á að sækja hana. Hvernig í ósköpunum látum við þetta viðgangast?

Ég er alveg með það á hreinu, eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, að það kostar okkur margfalt minna, ég myndi segja tífalt, jafnvel 50-falt eða 100-falt minna, að sjá til þess að þessir hópar fái ókeypis læknishjálp, sama í hvaða formi hún er. Gerum það núna, byrgjum brunninn, sýnum einu sinni — og ég vona að það verði í næsta pakka — að okkur sé alvara, að við ætlum ekki að gleyma þeim sem minnst hafa og verst hafa það í okkar þjóðfélagi vegna þess að þeirra tími er löngu kominn og það veit hæstv. forsætisráðherra.