150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að spjalla við hv. þingmann um fjölgun opinberra starfa sem mér finnst mjög áhugavert umfjöllunarefni af því að á vissum sviðum hins opinbera er tilfinnanlegur skortur á opinberum starfsmönnum í ákveðinni réttindavörslu. Þess vegna er langur biðtími hjá alls konar úrskurðarnefndum og ýmsu svoleiðis, biðtími hjá sýslumanni varðandi t.d. barnaverndarmál og forsjármál. Þar er tilfinnanleg vöntun á starfsfólki sem gerir það að verkum að þjónustan er léleg eins og er. Það væri mjög eðlilegt að fjölga starfsfólki þar.

Hinn gírinn er síðan ákveðin sjálfvirkni og sjálfsafgreiðsla sem við ættum samt að fara í til að gera ýmsa hluti skilvirkari sem ætti svo að leiða til fækkunar á opinberum störfum án þess að það kæmi niður á þjónustu við borgarana.

Þarna er ákveðinn valmöguleiki í því hvernig opinberum störfum er fjölgað. Það er hægt að gera með nýsköpun í gegnum verkefni eins og Brothættar byggðir. Í það fer vissulega opinbert fjármagn en starfsfólkið sem kemur að því er einfaldlega fólkið í byggðinni sem kemur með hugmyndir á sínum forsendum en verður ekkert endilega opinber starfsmaður þótt það noti opinbert fé. Það er hægt að tala um fjölgun og aukin opinber umsvif í tengslum við störf, hvort sem það varðar opinbera starfsmenn eða verkefni á vegum hins opinbera. Mér finnst það í raun sami hluturinn og þar spilar dálítið inn í það sem ráðherra sagði, að honum fyndist það fáránlegt. Í raun og veru viljum við og þurfum aukin opinber umsvif en það leiðir tæknilega ekki endilega til (Forseti hringir.) fjölgunar opinberra starfa heldur opinbers framlags sem býr til störf.