150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segir að fólk og fyrirtæki verði seint aðskilin en fyrirtæki eru mannanna verk. Fyrirtæki eru þar sem fólk kemur saman í ákveðnum tilgangi og nýtir ákveðið tækifæri. Það er mjög auðvelt að aðskilja fólk og fyrirtæki, t.d. greiða fyrirtæki allt öðruvísi skatta en fólk, eftir kostnað en ekki fyrir kostnað eins og fólkið. Þótt fyrirtæki hverfi er fólkið enn til staðar og jafnvel tækifærið og tilgangurinn enn til staðar.

Við setjum fólk ekki í skúffur en við setjum fyrirtæki í skúffur.

Það er auðvelt að aðskilja fólk og fyrirtæki. Ef við styðjum fyrirtæki til að viðhalda ráðningarsamningum o.s.frv. er afleiðingin vissulega sú að það kemur fólki til góða en tilgangurinn er að styðja fyrirtækin og vernda þau, ekki endilega fólkið, tilganginn eða tækifærið. Nákvæmlega sama fjármagn gæti farið til fólks í gegnum ýmiss konar önnur verkefni eða tækifæri á nákvæmlega sama hátt. Ef við gætum ýtt á góðan stóran pásutakka þar sem ekki er greitt af lánum eða þess vegna launum á meðan svona ástand varir þyrftum við að hugsa allt öðruvísi og kannski á mun einfaldari hátt um það hvernig við viðhöldum samfélaginu á slíkum tíma án þess að styrkja sérstaklega fyrirtæki eða fara neinar krókaleiðir, við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af eftirliti með því að rétt væri farið með fjármunina, hvort einhvers staðar væri skúffudót í gangi eða skattaskjólsleið o.s.frv. Það er það sem við lendum í vandræðum með og höfum lent í vandræðum með áður þegar fyrirtækjaleiðin hefur verið farin frekar en (Forseti hringir.) að fara beint í gegnum fólk. Vissulega er þetta ekki annaðhvort eða (Forseti hringir.) en ég hef verið að reyna að koma því til skila að það eru glufur í þessum aðgerðum, (Forseti hringir.) það er búið að vara við þeim frá upphafi og við þurfum að passa þær strax.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk.)