150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að passa ræðutímann. Ég er einmitt ósammála þessu, ég held að það sé alveg hægt að vera með kerfi þar sem enginn fellur í glufur, t.d. kerfi þar sem við værum með skilgreind lágmarkslaun, skilgreind framfærsluviðmið en ekki mismunandi framfærsluviðmið eftir því hvort maður skoðar hjá TR, félagsmálaráðuneytinu eða annars staðar. Það er sá grundvöllur sem okkur skortir og er tiltölulega auðvelt að búa til en einhverra hluta vegna höfum við ekki gert það. Ef við værum með þann grundvöll skilgreindan, það gólf skilgreint, vissum við a.m.k. hvar allar glufur myndu enda. Við erum ekki með þá vitneskju núna. Við vitum í rauninni hversu djúpt fólk getur sokkið, það er mjög djúpt, allt of djúpt, af því að við höfum ekki skilgreint lágmarksviðmið og lágmarksframfærslu almennilega.