150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Enn veldur hv. þingmaður mér miklum vonbrigðum. Hér eru allir að leggja hönd á plóg og reyna að vinna með stjórnvöldum í því að fjölga atvinnutækifærum til að vinna gegn atvinnuleysi. Hins vegar er algjörlega ljóst að einhverjir munu ekki fá atvinnu og það verða einhverjir sem þurfa að framfleyta sér langt undir lágmarkslaunum nema við hækkum atvinnuleysisbæturnar eins og Samfylkingin hefur lagt til. Við erum að tala um það fólk sem fær ekki notið þeirra úrræða sem stjórnvöld leggja á borðið. Það vill svo til, herra forseti, að heimilin í landinu glíma við fastan kostnað jafnt og fyrirtæki. Það á að mæta þeim að mínu mati. Okkur jafnaðarmönnum finnst að það eigi að mæta þeim heimilum sem hafa orðið fyrir mesta tekjufallinu (Forseti hringir.) og finna leiðir til þess um leið og reynt er að skapa fleiri störf, bæði fyrir karla og konur.