150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans yfir fjáraukann sem við fjöllum um núna. Mig langaði eingöngu til þess að spyrja hv. þingmann út í þá fjármuni sem ríkisstjórnin hefur núna tilkynnt um formlega, á blaðamannafundi og í viðtölum í gær og í dag, að eigi að færa fjölmiðlum á Íslandi. Það er talað um 350 milljónir en þess sjást engin merki í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Við samþykktum 400 millj. kr. til fjölmiðla sem áttu að fylgja frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra sem nú er í meðferð hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég heyrði ekki betur á fjármálaráðherra en að um væri að ræða þá peninga sem fagnað var þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er þá búið að hætta við frumvarp (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra varðandi stuðning til fjölmiðla? Við notum jú ekki sömu krónurnar tvisvar.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk, en láðist að setja klukkuna í ræðustólnum á 1 mínútu, sem verður gert nú.)