150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fyrir hreinskilnina. Það er alveg rétt, það eru fleiri verkefni hjá fjölmiðlum í dag en voru fyrir Covid, bæði er krafa okkar um stöðugar fréttir mikil sem og krafa okkar um alls konar afþreyingu sem fjölmiðlar á Íslandi, og eflaust úti um heim allan, hafa svarað mjög vel. Alveg til fyrirmyndar að fylgjast með þeim. Það er einmitt þess vegna sem maður veltir fyrir sér af hverju þetta er svona. Þetta svar hv. þingmanns er ekki í samræmi við svar hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag. Má þá ætla að Framsóknarflokkurinn muni keyra það hart að bæta við 350 milljónum í þetta í meðferð þingsins en Sjálfstæðisflokkurinn muni mögulega berjast á móti því? Eigum þá við í stjórnarandstöðunni, eða þau okkar sem vilja styðja við fjölmiðla, að reyna að styðja við Framsóknarflokkinn í ríkisstjórnarsamstarfinu?