150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði, að við værum öll ríkissjóður. Sameiginlegur sjóður okkar allra stendur undir velferðarkerfinu og margvíslegum öðrum mikilvægum verkefnum. Hv. þingmaður talaði einnig um þanþol ríkissjóðs. Það er alveg ljóst að ríkissjóður er ekki botnlaus og þess vegna þarf að huga vel að því að þessi úrræði gagnast mörgum en einnig að þau verði ekki misnotuð. Ég vildi bara rétt nefna þetta vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það.

Það sem mig langaði hins vegar að spyrja hv. þingmann er varðandi tryggingagjaldið, hvort hann sjái fyrir sér breytingar á því, að það verði hugsanlega fellt niður tímabundið. Einnig langar mig að spyrja hann um hlutabótaleiðina, (Forseti hringir.) hvort hún verði útvíkkuð og hvort það komi til greina að veita fyrirtækjum jafnvel fasta styrki eins og verið er að kynna í Danmörku.