150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ánægjulegt að heyra að þessir hlutir verði skoðaðir. Ég held að það sé afar mikilvægt vegna þess að það lítur út fyrir að staðan sé því miður verri en verstu sviðsmyndir gerðu ráð fyrir. Að sjálfsögðu vonum við að þegar þetta er allt saman gengið yfir þá náum við okkur tiltölulega hratt á strik og við Íslendingar höfum góð tækifæri í þeim efnum þegar við horfum t.d. til ferðaþjónustunnar. Þetta er öruggt land og fámennt og hér er falleg náttúra og það gæti fallið vel að eflaust nýrri ferðatilhögun margra eftir þessa veiru.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvort hann sjái fyrir sér aðkomu lífeyrissjóðanna í þessum aðgerðum til að lágmarka tjónið sem við stöndum frammi fyrir með einhverjum hætti, (Forseti hringir.) t.d. hvort hægt sé að fresta greiðslum í lífeyrissjóð tímabundið til þess að auka kaupmátt alls almennings.