150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um óvissu, óvissuástand sem hefur verið og hversu erfitt sé að búa til einhvers konar áætlanir og aðgerðir o.s.frv. ofan í það óvissuástand. En tilgangur okkar hérna og tilgangur ríkissjóðs sem slíks er að eyða þessu óöryggi, búa til vissu, búa til öryggi, fjármagna það sem þarf að gera, fjármagna tækifæri, viðhalda réttindum og þjónustu. Verkefnin eru fjölmörg úti um allt land og það er fullt af hugmyndum. Ef óvissan er svona erfið fyrir ríkisstjórnina en hún kemur samt með þessi skref sem nú eru að koma í fjárauka eitt og tvö, sem eiga að vera studd með greiningum, af hverju fær þingið ekki þær greiningar sem standa að baki þeim fjáraukum? Ég veit svarið — af því að þær eru ekki til — en mér þætti vænt um að heyra skoðun formanns fjárlaganefndar.