150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að framhald hlutastarfaleiðarinnar sem svar við því hvað tekur við er mjög mikilvægt. Það þarf að gerast sem fyrst og við erum með sérstakan starfshóp í því. Hlutastarfaleiðin er reyndar frumvarp sem upphaflega er komið frá félagsmálaráðherra en við erum sem sagt með sérstakan starfshóp þar. Við skulum hafa það í huga að við erum með 33.000 Íslendinga í hlutastarfaleið í dag þar sem ríkið tekur þátt í launakostnaði. Þetta er engin smáaðgerð. Hún á við um ferðaþjónustufyrirtæki. Ég heyri hér í dag að sumir kalla eftir sértækri aðgerð fyrir ferðaþjónustufyrirtækin. Fjöldinn allur af ferðaþjónustufyrirtækjum nýtur góðs af því. Ríkið tekur í dag stóran hluta af launakostnaði þessara fyrirtækja.

Staðan sem blasir við og ég nefndi áðan felst í því að sum þessara fyrirtækja eru með öllu tekjulaus og spyrja hvernig þau eigi að glíma við uppsagnarfrestinn hjá jafnvel öllum starfsmönnunum í framhaldinu og hvort hér á þingi verði teknar ákvarðanir til að létta mönnum að komast í gegnum það tímabil. Þar er augljóslega um ólíkar leiðir að ræða. Það er hægt að styðjast við félagslegu kerfin sem við eigum. Það er hægt að hugsa sér hreinlega lántökur vegna þess. Nú er ég bara að fleyta hugmyndir sem hafa verið nefndar við mig. Síðan geta menn séð fyrir sér að það geti verið réttlætanlegt að ríkið styðji fyrirtæki í gegnum slíkan tíma með sambærilegum hætti og á við í hlutastarfaleiðinni. Þetta eru allt atriði sem mér finnast koma til greina. Við þurfum að vera fljót að svara þessu.

Ég er sammála því að við þurfum að gefa fyrirtækjum tækifæri og að fólk upplifi að við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur og er raunhæft að hafa væntingar um að við gerum til að styðja menn á þessum erfiðu tímum. Þegar við skoðum öll úrræðin sem eru komin fram og stuðning frá fjármálafyrirtækjunum held ég að flestir geti sagt með góðri samvisku að akkúrat í dag gagnast (Forseti hringir.) fjöldinn allur af úrræðum mjög vel. Og það er verið að bæta í.