150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[17:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpið er hluti af öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum faraldursins hér á landi. Í frumvarpinu er fjallað um tvö úrræði, lokunarstyrk og stuðningslán, sem eru einkum sniðin að minni fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri. Við mótun úrræðanna var sérstaklega hugað að samspili þeirra við þau úrræði sem þegar hefur verið ráðist í vegna faraldursins, svo sem frestanir á skattgreiðslum og hlutastarfaleiðina. Úrræðin ná til rekstraraðila sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi og höfðu hafið starfsemi fyrir 1. febrúar á þessu ári.

Fyrra úrræðið, svokallaður lokunarstyrkur, tekur til þeirra rekstraraðila sem hafa tímabundið þurft að hætta alveg eða draga mjög úr atvinnustarfsemi vegna opinberra tilmæla um takmarkanir á samkomum og hafa orðið af verulegum tekjum af þeim sökum. Lagt er til að þessi hópur rekstraraðila geti sótt um sérstakan einskiptislokunarstyrk til Skattsins.

Til að rekstraraðili eigi rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði verður hann að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

Í fyrsta lagi þurfti hann að loka starfsstöð eða var óheimilt að stunda starfsemi eða veita þjónustu á tímabilinu frá 24. mars 2020 til og með 3. maí 2020 vegna fyrirmæla í 5. gr. auglýsingar heilbrigðisráðherra nr. 243/2020, um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar.

Í öðru lagi voru tekjur hans í apríl 2020 a.m.k. 75% lægri samanborið við sama mánuð árið áður. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 þannig að erfitt sé að gera samanburð við fyrri ár skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.

Í þriðja lagi voru tekjur hans a.m.k. 4,2 millj. kr. árið 2019 eða sambærileg fjárhæð umreiknuð ef starfsemi hófst síðar.

Í fjórða lagi er hann ekki í vanskilum með opinber gjöld sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum sem þýðir að viðkomandi hafi skilað framtali.

Í fimmta lagi hefur hann hvorki verið tekinn til gjaldþrotaskipta né slita.

Fjárhæð styrks nemur að meginstefnu þeim rekstrarkostnaði sem féll til á lokunartímabilinu. Styrkurinn getur þó aldrei orðið hærri en 800.000 kr. á hvern launamann og að hámarki verður hann 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila.

Hægt verður að sækja um styrkinn til 1. september 2020 og umsóknarferlið verður rafrænt. Skatturinn mun sjá um afgreiðslu umsókna og verða synjanir kæranlegar til yfirskattanefndar. Ef vafi er um hvort rekstraraðila var skylt að loka starfsemi geta Skatturinn og eftir atvikum yfirskattanefnd leitað umsagnar heilbrigðisráðherra sem gaf út auglýsinguna. Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna styrkjanna geti numið allt að 2,5 milljörðum kr.

Með síðara úrræðinu, svokölluðum stuðningslánum, er lagt til að ríkissjóður ábyrgist að fullu lán frá lánastofnun til minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu og tímabundnu tekjutapi vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Hópurinn sem getur átt rétt á lánum er mun stærri en sá sem getur sótt um styrkinn.

Til að rekstraraðili eigi rétt á stuðningsláni verður hann að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

Í fyrsta lagi voru tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars 2020 til 30. september 2020 eða fyrirséð er að þær verði a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Hafi hann hafið rekstur síðar er miðað við síðara 60 daga tímabil.

Í öðru lagi voru tekjur hans á árinu 2019 að lágmarki 9 millj. kr. og að hámarki 500 millj. kr. eða sambærileg fjárhæð umreiknuð ef starfsemi hófst síðar og var hluta úr ári.

Í þriðja lagi var launakostnaður hans árið 2019 a.m.k. 10% af rekstrarkostnaði eða sambærileg fjárhæð umreiknuð ef starfsemi hófst síðar. Hérna erum við með lægra viðmið en í brúarlánunum og við teljum að það sé ástæða til að vera með breiðvirkara úrræði gagnvart þessum smærri fyrirtækjum. Þarna lækkum við þröskuldinn fyrir aðgengi að þessu lánaúrræði töluvert mikið með 10% í stað þess sem var í brúarlánaúrræðum, 25%.

Í fjórða lagi hefur hann ekki greitt út arð, óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur viðkomandi sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við, enginn arður, engir kaupaukar, engin kaup á eigin bréfum, ekki greitt af víkjandi lánum fyrir gjalddaga, ekki veitt lán eða greiðsla til eigenda, ekki neitt slíkt frá 1. mars á þessu ári á meðan ábyrgðarinnar nýtur.

Í fimmta lagi er hann ekki í vanskilum við lánastofnun þannig að þau hafi staðið lengur en 90 daga.

Í sjötta lagi er hann ekki í vanskilum með opinber gjöld sem komin voru á eindaga fyrir lok síðasta árs og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum.

Í sjöunda lagi hefur bú hans hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.

Í áttunda lagi verður að mega ætla að starfsemi hans verði rekstrarhæf þegar bein áhrif faraldursins og aðgerða stjórnvalda til að verjast honum verða liðin hjá. Þetta er auðvitað nokkuð matskennt atriði en engu að síður sjálfsagt að hafa með. Hér er það sama, fjárhæð stuðningslána getur numið allt að 10% af tekjum rekstraraðila á árinu 2019 en lán til hvers rekstraraðila getur þó ekki orðið hærra en 6 millj. kr.

Kannski halda margir að 6 millj. kr. séu ekki há fjárhæð og geti ekki haft mikil áhrif í svona stóru hagkerfi eins og okkar en staðreyndin er samt sú að gríðarlegur fjöldi af fyrirtækjum er bara með örfáa starfsmenn og þau hafa orðið fyrir tímabundnum áhrifum af veirufaraldrinum, m.a. út af samkomubanninu þar sem mjög hefur dregið úr veltu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Smásöluverslunin hefur fundið mikið fyrir áhrifunum og þetta hefur orðið til þess að menn hafa úr færri krónum að spila til að standa undir föstum rekstrarkostnaði. Þar geta fjárhæðir á borð við 1, 2, 3 og upp í 6 milljónir haft verulega mikil áhrif til að rétta stöðu viðkomandi aðila. Þessi lán eru á sérstaklega góðum kjörum og endurgreiðanleg á löngum tíma. Þau eru óverðtryggð og bera sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabankanum. Þau eru veitt til 30 mánaða og verða endurgreidd með 12 jöfnum afborgunum síðustu 12 mánuði lánstímans.

Áskilið er að lánin megi aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega. Jafnframt að áður fenginn lokunarstyrkur, hafi menn fyrst fengið lokunarstyrk, verði dreginn frá hámarkslánsfjárhæð.

Umsóknum um lánin skal beint í gegnum þjónustugátt á Ísland.is til þeirrar lánastofnunar sem rekstraraðili tilgreinir. Ef skilyrði láns eru uppfyllt afgreiðir lánastofnun lánið til rekstraraðila. Við erum sem sagt að smíða sérstaka vefgátt fyrir afgreiðslu þessara lána og fyrir umsóknir fyrir styrkina sem verða afgreiddir af Skattinum. Þar skráir viðkomandi rekstraraðili sig inn, gefur allar upplýsingar, hakar við að hann beri ábyrgð á því að þær séu allar réttar, geri sér grein fyrir þeim viðurlögum sem er að finna í frumvarpinu um að veita rangar upplýsingar eða misnota sér úrræðið. Allt er þetta smíðað með þeim hætti að það geti leitt til sem skjótastrar afgreiðslu umsókna.

Það er stefnt að því að við verðum tilbúin að taka við umsóknum um styrkina um leið og breytingin á samkomubanninu tekur gildi, sem sagt í kringum 4. maí. Ef þingið verður búið að afgreiða málið á þeim tíma ættu að vera komnar allar forsendur fyrir því að að við séum í stakk búin til að taka við umsóknum strax þá og afgreiða hratt í framhaldinu styrkhluta þessa máls. Ég held að ég geti sömuleiðis fullyrt að við munum geta afgreitt lánahlutann með sambærilegum hætti, tekið við umsóknum og sett afgreiðslu þeirra mála í réttan farveg á fyrri hluta maímánaðar. Allar okkar áætlanir gera ráð fyrir því. Þess er ekki langt að bíða að þessir hlutir geti komist á hreyfingu þó að það hafi tekið okkur lengri tíma en ég hafði vonast til að koma brúarlánunum út til viðskiptavina. Það er reyndar ekkert sem kemur í veg fyrir það, nú þegar bæði lög og skilmálar milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka liggja fyrir, að fyrirtæki séu í samtali við sínar lánastofnanir um möguleg brúarlán. Auðvitað þarf að loka umgjörðinni milli Seðlabanka og fjármálastofnana til að slík lán geti fengið afgreiðslu.

Í þessu úrræði hér, þessum stuðningslánum, er það sama, þær lánastofnanir sem taka þátt í úrræðinu þurfa að hafa gert samning við Seðlabankann um framkvæmd lánanna og eins og átti við í brúarlánafyrirkomulaginu er samningurinn byggður á samningi fjármála- og efnahagsráðherra við Seðlabankann.

Við höfum gert áætlun sem er hægt að lesa um í greinargerð með frumvarpinu um það hvert gæti orðið mögulegt umfang þessara lána. Það eru ekki mjög nákvæm vísindi sem maður er að stunda þegar slegið er á mögulegt umfang en í frumvarpinu er gerð grein fyrir því að við séum með um 18.000 fyrirtæki í viðskiptahagkerfinu sem eru með fólk á launaskrá og að um 14.000 þeirra teljist uppfylla þessi almennu skilyrði um veltuviðmið og starfsmannafjölda. Það verður þá mengi 14.000 fyrirtækja en þar sem við erum með eitt viðbótarskilyrði um að það hafi orðið tiltekið tekjutap er ljóst að ekki munu öll 14.000 fyrirtækin uppfylla öll skilyrði. Spurningin er þá þessi: Hversu hátt hlutfall af þessum 14.000 fyrirtækjum hafa orðið fyrir 40% tekjufalli? Það er ekki vitað nákvæmlega en við getum fengið vísbendingar, m.a. úr könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu hjá sínum félagsmönnum sem benti til þess að mjög hátt hlutfall félagsmanna þeirra teldi sig hafa orðið fyrir a.m.k. 50% tekjufalli á þessu tímabili. Út frá því er hér áætlun um að í kringum 8.000 fyrirtæki gætu uppfyllt skilyrðin og ef þau sækja sér þessi mjög svo hagstæðu lán til að bregðast við þrengingum í rekstri gæti umfang stuðningslánanna verið um 28 milljarðar. Fyrirtæki sem tekur stuðningslán fyrirgerir ekki rétti sínum til að taka síðar brúarlán ef viðskiptabanki viðkomandi telur að skilyrði þess að fá slíkt lán séu uppfyllt. Í því tilviki er þá, eins og við vitum, fjármálastofnunin að taka eigin útlánatapsáhættu og gildir aðeins annað ferli um slíkar lánveitingar af þeim sökum.

Í þessu frumvarpi er lagt til að eftirlitsnefndinni sem fjármála- og efnahagsráðherra skipar til að hafa eftirlit með framkvæmd viðbótarlána til fyrirtækja vegna heimsfaraldursins verði einnig falið að hafa eftirlit með framkvæmd stuðningslánanna. Þetta er sem sagt sama eftirlitsnefndin og er með það sem heitir í lögum viðbótarlán og ég hef í minni ræðu vísað til sem brúarlána, sama eftirlitsnefnd og við erum að byggja á sambærilega upplýsingagjöf og skýrslugjöf. Ég vísa til þeirra laga varðandi skipan eftirlitsnefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.