150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er sannarlega vandasamt verkefni en samt blasir við að hæstv. ráðherra verður að leysa það með einhverjum hætti. Ferðaþjónustan er í algjörri óvissu. Ferðaþjónustan var okkar stærsta atvinnugrein og er núna nánast hrunin.

Hvernig geta ferðaþjónustufyrirtæki metið hvort það sé líklegt að þau verði rekstrarhæf þegar faraldurinn er genginn yfir? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að gera það til að geta þá afgreitt stuðningslánin? Ég átta mig engan veginn á þessari stöðu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvert er planið? Er búið að gera einhverjar áætlanir um það hvernig atvinnulíf muni þróast hér eftir Covid-19? Gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að þegar faraldurinn hefur gengið yfir verði bara allt eins og ekkert hefði í skorist og öll ferðaþjónustan fari algjörlega á fullan skrið? Hvernig í ósköpunum á að leysa þetta vandamál?