150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér vísar hv. þingmaður til reglugerðarheimildar ráðherra. Það er ekkert sjálfgefið að talin verði þörf á að gefa út reglugerð. Ég sæi helst fyrir mér að það þyrfti að gefa út reglugerð ef í ferlinu koma upp einhver sérstök álitamál sem fjármálafyrirtækin telja að valdi vandræðum við afgreiðslu mála og snerti t.d. sérstaklega 10. gr. þar sem hin ýmsu skilyrði eru talin upp, ekki einungis það sem hv. þingmaður leggur hér áherslu á.

Ég held að við hljótum að vera sammála um að þetta getur verið erfitt mat. Þetta eru engu að síður rétt skilaboð til þeirra sem ætla að sækjast eftir láni. Við erum ekki að reyna að teygja okkur til þeirra sem hafa upplýsingar um atriði sem valda því að þeir eigi sér enga framtíð. Segjum t.d. að ef allt hangir á því að menn hafi ætlað að skrá eitthvert einkaleyfi eða eitthvað slíkt en hafi nýlega fengið erindi um að einkaleyfi fáist ekki skráð, þá hafa menn upplýsingar um stöðuna í rekstri sínum sem varða mikilvæg atriði í framtíðinni. (Forseti hringir.) Ég nefni þetta af handahófi sem eitthvert skólabókardæmi um tilvik sem gæti átt við.

Við gerum umgjörð þessara mála þannig að uppfylli menn allar þessar meginkríteríur verði auðsótt að fá lánin.